Skýrsla um Penetreitor 2005
Talið er að um 50.000 Íslendingar eldri en fimm ára eða 22% þjóðarinnar eigi við geðræn vandamál að stríða.
Það er því mjög líklegt að í umhverfi okkar, á hverjum degi, rekumst við á fólk á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins sem glímir við geðræna sjúkdóma . Á bak við andlit þessa fólks leynast hinar ótrúlegustu sögur, fullar af sorgum og sigrum.
Við viljum auka víðsýni, stækka reynsluheim okkar og stuðla að opnari samskiptum og umræðu um andleg/geðræn málefni og vandamál.
EFNISYFIRLIT
KAFLI 1.
INNGANGUR /HVATI
1. MARKMIÐ / FORSENDUR / ÚTGANGSPUNKTAR
2. NÝSKÖPUNARGILDI
3. RANNSÓKNARAÐFERÐ
KAFLI 2.
HEIMILDASAMANTEKT
1. HÖFUNDURINN
2. HEIMUR VERKSINS
3. VERKIÐ
4. SKILGREINING VERKSINS
5. ÞÁTTTAKENDUR
6. HUGARAFL - UM VERKIÐ
KAFLI 3.
AÐFERÐAFRÆÐI
1. GAGNAÖFLUN / VERKLÝSING / FRAMVINDA
2. RAMMI VERKEFNIS
KAFLI 4.
GREINING GAGNA
1. NIÐURSTÖÐUR
2. ÁVINNINGUR
KAFLI 5.
UMRÆÐA OG NIÐURLAG
1. UPPLIFANIR EINSTAKLINGA Í HUGARAFLI
2. UPPLIFANIR NEMA
ÁGRIP
Talið er að um 50.000 Íslendingar eldri en fimm ára eða 22% þjóðarinnar eigi við geðræn vandamál að stríða.
Það er því mjög líklegt að í umhverfi okkar, á hverjum degi, rekumst við á fólk á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins sem glímir við geðræna sjúkdóma . Á bak við andlit þessa fólks leynast hinar ótrúlegustu sögur, fullar af sorgum og sigrum.
Við viljum auka víðsýni, stækka reynsluheim okkar og stuðla að opnari samskiptum og umræðu um andleg/geðræn málefni og vandamál.
Við viljum fjalla um leyndarmálin í samfélaginu. Það sem ekki
má tala um en mótar okkur. Við viljum skilja betur það samfélag sem
við búum í og miðla þeim skilningi til annarra í gegnum það listform
sem við þekkjum best: Leikhúsið.
Fyrir okkur er leikhúsið miðill til að vekja fólk til umhugsunar um umhverfi sitt og þann raunveruleika sem það býr með. Að segja sögu er kraftmikil og áhrifarík leið til að ná til fólks.
KAFLI 1.
INNGANGUR
Útgangspunktur verkefnisins gengur út á að leiklistarnemar við leiklistardeild Listaháskóla Íslands vinna með fólki sem tengist beint eða óbeint andlegu ofbeldi, einelti og geðrænum vandamálum. Þeir samstarfsaðilar sem veljast taka virkan þátt í uppfærslu leikrits sem fjallar um framangreind málefni. Ekki sem leikarar, heldur sem virkir, gagnrýnir áhorfendur sem miðlað geta af eigin reynslu. Upphafleg stefna var að vinna eftir dramaþerapískum forsendum til að virkja þátttakendur í ferlinu en eftir því sem á leið reyndist ekki þörf á því þar sem nægur samstarfsvilji var fyrir hendi hjá báðum aðilum. Vonir voru bundnar við að samsvörun við eigið líf og reynslu myndi skila sér í auknum skilningi og fræðslu til þeirra sem hafa verið beittir eða hafa beitt andlegu ofbeldi eða kúgun, lent í einelti eða glíma við geðræn vandamál. Ennfremur gekk rannsóknin út á að kanna hvort slikt samstarf gengi yfirleitt upp og hver ávinningurinn yrði, ef nokkur.
Leikverkið Penetrator eftir skoska leikskáldið Anthony Neilsson varð fyrir valinu. Kafað var í greiningarvinnu. Heimur verksins skilgreindur og verkið opnað. Augljósar tengingar við geðhvarfasýki, meðvirkni, einelti, stjórnun og stjórnleysi og kúgun hjálpaði okkur að tengja leikritið sjálft við rannsóknarefnið.
Samstarf myndaðist við Hugarafl, hóp fólks með geðræn vandamál sem leitar óhefðbundinna batalausna og hafnar, upp að vissu marki, hinum svokölluðu kerfislausnum þar sem þau álíta að manneskjan/einstaklingurinn gleymist.
Kjarnahópur sem samanstóð af fimm ólíkum einstaklingum, körlum og konum á aldrinum 22–64 ára sem öll glíma við geðræn vandamál, þ.m.t. geðklofa, þunglyndi, kvíðaröskun og geðhvarfasýki, las leikritið, horfði á rennsli. Ennfremur tók hópurinn þátt í greiningarvinnu og umræðum um eðli verksins, hugaði að hvort þýðingin stæðist trúverðugleika en þó aðallega hvernig þau geðrænu vandamál sem persónur verksins glíma við kæmu þeim fyrir sjónir.
Skemmst er frá því að segja að fólkið hafi kannast við mörg einkenni, takta, hegðun, atferli og aðstæður í verkinu og þá sérstaklega út frá geðklofahegðun sem er eitt aðalumfjöllunarefnið í verkinu. Samsvaranir voru allmargar og ánægjulegt var að finna að fólkið var tilbúið að deila með okkur reynslu sem flestum er hulin.
Þátttakendum reyndist auðvelt að tjá sig opinskátt um sínar aðstæður og forsögu, aðallega sökum þess að fókusinn var ekki á þeim sjálfum og þeirra sálarheill og á þeirra “vandamálum” heldur nýttust þeirra punktar og dæmi sem uppbyggilegt innlegg í hina listrænu vinnu.
Penetreitor var sýnt 12 sinnum fyrir fullu húsi í Listamiðstöðinni Klink og Bank undir nafninu Reykvíska Listaleikhúsið. Leikstjórn var í höndum Kristínar Eysteinsdóttur.
MARKMIÐ / FORSENDUR / ÚTG.PUNKTAR
RANNSÓKNARSPURNINGIN
Að komast að því hvort samvinna af þessu tagi skilar árangri og ef svo er, þá hvaða og fyrir hvern?
MARKMIÐ
o Að þolendur og gerendur andlegs ofbeldis, eineltis og kúgunar og fólk sem glímir við geðræna sjúkdóma, fræðist og takist á við reynslu sína sem virkir þátttakendur í skapandi ferli, unnu út frá leikverki um sams konar málefni.
o Að koma upp félagslegu tengslaneti í kringum verkefnið. Að ná sambandi við þá hópa innan samfélagsins sem tengjast efni leikveksins. Hér er um að ræða forvarnarsamtök, félagasamtök og miðstöðvar og hjálparsamtök sem einbeita sér að fólki sem glímir við samfélagsleg vandamál.
o Að koma upp samskiptaneti um efni verksins, umræður að loknum sýningum og endurgjaldslausum sýningum fyrir þá samfélagshópa sem gætu haft félagslegan ávinning af boðskapnum.
o Efla hlutverk geðsjúkra við að hafa áhrif á menningarlegt umhverfi sitt og efla þannig mann- og félagsauð.
o Að skapa hlutverk fyrir fólk með reynslu af geðsjúkdómum með þátttöku í verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á bata.
o Að vinna gegn fordómum í garð geðsjúkra hvað varðar þátttöku í verkefnum á sviði menningar og lista.
Samfélag okkar byggist upp á samskiptum einstaklinga. Þessi samskipti eru jafnmargvísleg og mennirnir eru margir. Niðurdrepandi og skaðandi samskipti einstaklinga skaða samfélagið því einstaklingarnir verða óvirkir þátttakendur. Við vildum skoða þessi samskipti og draga þau fram í dagsljósið. Við vildum skapa umræðu um sálarheill okkar samfélags.
Markhópar verkefnisins eru samfélagshópar sem glíma við félagslega einangrun eða útskúfun af einhverju tagi og meðlimir forvarnasamtaka og félagssamtaka sem vinna að samfélagslegum vandamálum líkt og geðsjúkdómum og andlegu ofbeldi.
NÝSKÖPUNARGILDI
Verkefni sem þetta hefur gildi í nýsköpun á fjölmörgum sviðum, fyrir samfélagið, fræða-og menningarsviðið, leiklistarnema og einstaklinga með geðraskanir.
Sem nýsköpun fyrir samfélagið fá geðsjúkir einstaklingar tækifæri út frá eigin forsendum þar sem þeirra hugsun og skoðanir skipta máli fyrir heildarútkomu leikverks. Þeir vinna verk sem hefur einnig gildi fyrir þá. Ein hugmyndafræði iðjuþjálfunar (MOHO) byggist á því að einstaklingar vinni útfrá eigin gildum og fái hlutverk við hæfi. Þannig fá þeir tækifæri frá umhverfinu til að spreyta sig í því sem skiptir þá máli.
Geðsjúkir sem hafa veikst og náð bata hafa reynslu sem skapar verðmæti fyrir menningarlífið og samfélagið í heild. Sem nýsköpun fyrir fræðasviðið eru geðsjúkir í samvinnu eða viðræðum við leiklistarnema á jafningjagrundvelli að vinna á skipulagðan hátt að sameiginlegu markmiði, uppsetningu leikverks þar sem forsögur, hegðun og atferli persónanna grundvallast að mörgu leyti á skilningi fyrrnefnda hópsins. Þar af leiðandi er verið að ná fram upplýsingum sem væru jafnvel ekki að koma fram ef aðstæður væru aðrar, líkt og viðtöl við fagaðila. Verkefni þetta er einnig nýsköpun fyrir leiklistarnema. Í gegnum það hafa nemarnir öðlast ómetanlegan skilning og reynslu á mjög brothættum viðfangsefnum sem dýpkar til muna þá persónusköpun sem leitast var eftir.
Einnig hefur þetta verkefni nýsköpunargildi í eflingu mann- og félagsauðs með samstarfi geðsjúkra og leiklistarnema. Í tveimur rannsóknum og könnun á viðhorfum geðsjúkra til atvinnuþátttöku sem Elín Ebba Ásmundsdóttir stýrði kom fram að geðsjúkir telja atvinnuþátttöku eiga stóran þátt í því að ná bata í sínum geðsjúkdómi. Í 70% tilvika töldu þátttakendur vinnuhlutverkið vera mikilvægasta hlutverkið, fyrir flesta var það lífsspursmál og töldu notendur að ef þau væru ekki í vinnu myndu þau veikjast og þyrftu að leggjast inn á sjúkradeild. Niðurstöður gáfu til kynna að vinnan væri lykilhlutverk sem veitti þeim tækifæri til að vera virkir þjóðfélagsþegnar. Á þessum rannsóknum má sjá mikilvægi þess fyrir geðsjúka að taka þátt í verkefnum sem höfða til þeirra þar sem þeir fá tækifæri til að vera virkir og hafa áhrif í samfélaginu. Geðsjúkir einstaklingar í bata sem ekki eru tilbúnir út á almennan vinnumarkað vilja fá verkefni sem hafa þýðingu fyrir þá þannig að reynsla þeirra af geðsjúkdómum nýtist.
Nýsköpunin felst þó fyrst og fremst í því að skapa nýjan starfsvettvang og umhverfi fyrir fólk með reynslu af geðsjúkdómum og samfélagslegum vandamálum. Nýr vettvangur og tækifæri fyrir einstaklinga til að nýta sínar sterku hliðar, hæfileika, nám og reynslu. Með þátttöku í hópi á þessum vettvangi eflist eigin áhrifamáttur og hann stuðlar enn frekar að bata og auknum skilningi.
RANNSÓKNARAÐFERÐ
Rannsóknaraðferð verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar snýr hún að hinum leikræna hluta og hins vegar að því sem snýr að samstarfi leiklistarnema og Hugarafls.
Grunnvinna hins leikræna hluta fór fram eftir kerfi sem nefnt hefur verið Hin gerðarlega greining, sem útskýrð er nánar í viðauka en gengur öllu fremur út á að þýða eitt listform s.s. bókmenntir og leikritun yfir á tungumál annarrar listgreinar , þ.e. sviðslistar. Kerfið gengur út á að skilgreina heim verksins og hvaða grunnlögmál og reglur eru við lýði í þeim heimi. Ennfremur gengur kerfið út á að skapa grundvöll til lífrænnar leikrænnar tjáningar og aukins skilnings á persónum verksins. Út frá þessari greiningu opnuðust margar dyr og tengingar við m.a. geðhvarfasýki, meðvirkni, einelti, stjórnun og stjórnleysi og kúgun hjálpaði hún okkur að tengja leikritið sjálft við rannsóknarefnið. Nánari útlistun á kerfinu er að finna í viðauka. Út frá auknum skilningi á efniviði verksins reyndist auðveldara að ræða við fagaðila á geðheilbrigðissviði og fagmenntað leiklistarfólk á jafningjagrundvelli og útlista framkvæmd samstarfsins.
Samstarfið skyldi vinna útfrá hópvinnu, samlestrum á verkinu, þátttöku á rennslum, viðtölum bæði við hópa og einstaklinga.
Forvarnar- og félagssamtök líkt og Hugarafl sæju um mannkost, efni og upplýsingar. Sálfræðingur, geðlæknir og dramaþerapisti hefðu umsjón með aðferðafræði hópvinnu og ynnu viðtalstækni fyrir og úrvinnslu eftir. Dramatúrg hefði það hlutverk að aðstoða við að nýta úrvinnslu hópvinnu og viðtala til leikrænnar úrvinnslu. Leikstjórinn hefði heildarsýn leikverks á sinni könnu en leiðbeinandi heildarsýn verkefnisins.
Þó að lagt hafi verið upp með dramaþerapíuna sem vinnutæki þróaðist verkefnið frá þeirri forsendu þar sem kom í ljós að hefðbundnari aðferðir til hópvinnu hentuðu betur.
Úrvinnsla gagna fór fram með spurningalistum og umræðufundum.
Leikstjóri og dramatúrg: Kristín Eysteinsdóttir
Sálfræðingur: Jóhann Ingi Gunnarsson
Leiðbeinandi : Ingvar E. Sigurðsson
Ráðgjafar: Kári Halldór Þórsson, Elín Ebba Ásmundsdóttir,
Auður Axelsdóttir, meðlimir Hugarafls,
Héðinn Unnsteinsson
Leikarar: Jörundur Ragnarsson, Vignir Rafn Valþórsson, Stefán Hallur Stefánsson
KAFLI 2. - HEIMILDASAMANTEKT
HÖFUNDURINN
Anthony Neilson fæddist í mars 1967 í Edinborg, Skotlandi. Hann er af
leikhúsfólki kominn og ólst svo að segja upp í leikhúsinu. Eftir frekar
brokkgenga skólagöngu fór hann í leiklistarskóla í Edinborg en var rekinn
eftir eitt ár. Neilson fór þá að skrifa útvarpsleikrit og sigraði
ungskáldakeppni á vegum BBC. Hann vakti fyrst á athygli á
Edinborgarhátíðinni árið 1991 með leikritinu Normal, sem fjallaði um
fjöldamorðingja. Tveim árum seinna setti hann tóninn fyrir bresku
nýbylgjuna með leikritinu Penetrator árið 1993 og skipaði sér þar með í flokk með höfundum eins og Söru Kane og Mark Ravenhill. Leikrit Neilsons eiga það
öll sameiginlegt að vera hrá og hröð og vera til þess fallin að koma
áhorfandanum á óvart. Anthony Neilson hefur skrifað á annan tug leikrita
fyrir svið og útvarp og hlaut nýverið bresk leikhúsverðlaun fyrir nýjasta
verk sitt, Stitched.
HEIMUR VERKSINS
Hugtakið “In-yer-face” er skilgreint af New Oxford English Dictionary
(1998) sem: “something blatantly agressive or provocative, imposbible to ignore or avoid”
Á tíunda áratug síðustu aldar braust fram í bresku leikhúslífi ný
leikhússtefna sem fékk skilgreininguna In-yer-face! Hugtakið In-yer-face
er notað yfir eitthvað ögrandi og agressíft, þegar eitthvað gerist sem að
þú neyðist til að meðtaka, þegar farið er inn á þitt persónulega svæði,
þegar farið er yfir strikið. Hin nýju leikrit áttu það sameiginlegt að
vera skrifuð af frekar ungu fólki og fjalla á opinskáan hátt um líf þeirra
og þá heima sem þau búa í. Þetta voru flestallt frekar ofbeldisfull verk
með grófu málfari og einblíndu á kynlíf og hið forboðna. Auðvitað er hið
forboðna ekki ósnertur flötur í leiklistarsögunni og hafa mörg leikskáld
hreinlega gert út á að brjóta hin ýmsu tabú. Meira að segja meistari
Shakespeare notaði mannát, samkynhneigð, nauðganir, morð og fleira til að
krydda verkin sín, svo ekki sé nú minnst á blessaða Grikkina.
En In-yer-face kynslóðin leitaði samt frekar í viskubrunna manna eins og
Alfred Jarry, Antonin Artaud, Samuel Beckett, Bertold Brecht John Osborne
ofl. Menn sem þorðu að breyta út af “vananum” og skrifa leikrit sem að
höfðu áhrif.
In-yer-face leikhúsið gengur út á að vekja áhorfandann til umhugsunar með sjokki, sýna honum hvað heimurinn getur verið ljótur á mjög opinskáan
hátt, nota óheflað tungumál og ógeðfelldar aðstæður til að hrista upp í
öruggum heimi hins almenna áhorfanda. Fæst In-yer-face leikrit reyna að
sýna hlutina á hlutlausan hátt og leyfa áhorfandanum að mynda sér skoðun.
Þvert á móti reyna þau að fá áhorfandann til finna fyrir tilfinningunum
sem eru í gangi á sviðinu og taka þátt í þeim.
Það var nákvæmlega þetta sem heillaði okkur í upphafi og okkur fannst vanta í íslenskt leikhúslíf. Við vorum orðnir þreyttir á að sitja öruggir út í myrkrinu í salnum og horfa á leikara fara með textann sinn í margra metra fjarlægð, alveg jafn öruggir og áhorfendurnir. Okkur langaði sem leikara að upplifa nálægðina við áhorfendur, mynda tengingu við þá, hafa áhrif. Taka öryggið frá þeim og láta þá upplifa eitthvað nýtt.
Enginn átti að labba út óbreyttur. En hvernig? Eftir nokkra leit duttum
við niður á leikritið Penetrator. Í því fundum við allt sem við
leituðum að. Það fjallaði um þrjá vini á sama aldri og við erum, þeir
tala sama tungumál og við og voru að kljást við vandamál sem við áttum
auðvelt með að tengja okkur við. Þegar leikritið sjálft
var fundið lögðumst við í að þýða það og staðfæra. Það gerðum við til að
gefa áhorfandanum ekki færi á að fjarlægja sig frá aðstæðunum og
umhverfinu og til að sýna að efnistök verksins eiga heima jafnt á Íslandi
sem og annars staðar.
Því næst þurftum við húsnæði. Við hófum æfingar í Tjarnarbíói en fundum mjög fljótt að við myndum ekki ná að skapa það
andrúmsloft sem að við vorum að leita að þar. Við fórum þá á fund
forráðamanna listamiðstöðvarinnar Klink og Bank og fengum inni hjá þeim í
stórum sal sem við minnkuðum um helming til að halda í nálægðina.
Leikmyndina reyndum við að gera eins raunverulega og við gátum, svo að
áhorfandinn fengi það á tilfinninguna að hann væri staddur í alvöru íbúð
en ekki á leiksýningu.
VERKIÐ
Verkið fjallar um þrjá unga menn. Tveir þeirra, Maggi og
Alli, leigja saman litla íbúð og og framan af leikritinu erum við að
fylgjast með þeim og þeirra sambúð. Þeir lifa, að því er virðist,
hálf tilgangslausu lífi, samræðurnar snúast um skemmtanir, kvennafar, gamla
“glæsta” tíma og fyrrverandi kærustur, inn á milli skiptast þeir svo á
grófum karlahúmor og drekka og dópa. Það dregur til tíðinda þegar gamall vinur þeirra, Stinni, bankar upp á. Hann er nýkominn úr hernum og hefur ekki séð þá í nokkur ár. Það kemur fljótlega í ljós að Stinni og Maggi hafa verið vinir síðan í barnæsku og tengjast sterkum böndum. Alli hefur hins vegar komið seinna inn í þennan vinahóp.
Alli er ekki hrifinn af því að hafa Stinna en Maggi tekur
ekki annað í mál en að leyfa honum að gista. Stinni er ekki búinn að vera
lengi í heimsókn þegar kemur í ljós að hann er ekki í góðu andlegu jafnvægi. Hann segir þeim ótrúlegar sögur um Penetreitora sem séu að eltast við hann og
hafi verið að misnota hann kynferðislega. Hann sveiflast fram og til baka
í því að vera árásargjarn, hvass og uppstökkur og undirlægur, aumur og
viðkvæmur. Maggi og Alli bregðast við, hvor á sinn hátt og stendur ekki á
sama, allavega stundum. Þegar Stinni dregur upp hníf til að sanna mál
sitt fara málin að æsast og enda með því að Stinni heldur Alla föstum
tökum og ógnar þeim báðum lífshættulega. Með þessu fær hann Magga til að
rifja upp erfiða og óþægilega minningu um kynferðislega stund sem hann og
Stinni áttu saman sem börn.
Þegar þessi saga kemur upp á yfirborðið róast Stinni og brotnar niður. Í kjölfarið rýkur Alli upp, grípur hnífinn og heldur reiðilestur yfir Stinna og svo Magga fyrir að gera ekkert til að bjarga honum. Í lokin fær Maggi Alla til að viðurkenna að hann hafi sofið hjá fyrrverandi kærustu Magga sem endar með því að Maggi rekur Alla út úr íbúðinni. Eftir sitja Maggi og Stinni.
SKILGREINING VERKSINS
Unnið var samkvæmt hinni gerðarlegu greiningu. Þessi greiningaraðferð byggist á kerfi Stanislavskys sem jafnan er talinn faðir nútíma leiklistar. Greiningin er þríþætt. Fyrst er greindur svokallaður “Stóri hringur” Þar er höfundurinn tekinn fyrir, hvernig líf hans hefur verið og í hvernig samfélagið hann lifir/lifði í. Næst er greindur “Miðjuhringur”. Hann inniber allt sem gerist í verkinu sjálfu. Reynt er að skilgreina heim verksins og þau lögmál sem gilda þar. Einnig eru fundnir höfuðviljar og aðalhindranir persóna í verkinu sem heild.
Að lokum er “Innsti hringur” skilgreindur en það byggist á að greina allt verkið niður í kringumstæður, stórar og smáar og fundnir viljar og hindranir persóna í hverri kringumstæðu fyrir sig.
Undirliggjandi drífandi hindrun er stutt skilgreining á heimi verksins og baráttunni þar(sjá viðauka nr.3):
Í heimi þar sem allir lifa á fornri frægð, í fortíðinni, í hlutverkum sem
fólk lenti í sem börn. Er ekki pláss fyrir að þroskast, horfast í augu við
sjálfan sig, halda áfram í lífinu og brjótast út úr stöðnuðum hlutverkum þ.e. fullorðnast. Baráttan í verkinu snýst um að halda í fortíðina, hlutina eins og þeir voru.
Eftirtalin orð komu upp í vinnuferlinu og voru notuð til að skapa heim verksins.
Kúgun
Ofbeldi
Eiturlyf
Vinátta
Ábyrgð
Ranghugmyndir Fortíðarhyggja/ Þrá
Sjónvarp
Samkynhneigð
Klám
Framhjáhald
Leyndarmál
Æskuminningar
Sjálfsfróun
Sambúð
Sjálfsmynd
Kvenhatari
Sakleysi
Einelti
Karlremba
Kærasta/Kærasti
Kynlíf
Von/Vonleysi
Ást/Hatur
Karlmennska
Djamm
Samkeppni
Traust/Vantraust
Undirliggjandi drífandi hindrun er eitthvað sem á við allar persónur
verksins og því þann heim sem þeir eiga sameiginlegan. Vandamálin sem
þeir eiga við að etja í leikritinu geta öll fallið undir þessa
skilgreiningu, þar með talið geðveiki Stinna.
Eftir að hafa skilgreint verkið og komist að því að geðveikin spilaði stóran þátt í undirstöðum þess urðu Hugaraflsmeðlimir okkar stærsta heimildauppspretta með reynslusögum sínum og bakgrunni.
ÞÁTTTAKENDUR
HUGARAFL
Hugarafl er hópur einstaklinga sem á við geðræn vandamál að stríða og eru í bataferli og starfa með tveimur iðjuþjálfum, þeim Auði Axelsdóttur og Elínu Ebbu Ásmundsdóttur, sem hafa víðtæka reynslu á geðheilbrigðissviði. Meðlimir Hugarafls vilja deila reynslu sinni með öðrum sem eru styttra komnir í bataferlinu. Hugarafl starfar í Heilsugæslunni í Reykjavík og ætlar meðal annars að vinna að verkefnum sem miða að því að bæta geðheilbrigðisþjónustu með þeirra sýn.
Markmið hópsins er fyrst og fremst að skapa hlutverk fyrir fólk með reynslu af geðsjúkdómum með þáttöku í verkefnum sem hafa áhrif á þjónustu við geðsjúka. En Starfshópurinn Hugarafl vill skapa einstaklingum tækifæri á að nýta sínar sterku hliðar, hæfileika og reynslu. Hópurinn vill vinna gegn fordómum hjá þeim sjálfum og öðrum því nóg er af þeim í umhverfinu. Fordómar eru þekkingarleysi og því vill hópurinn breyta með því að stuðla að markvissri fræðslu um geðsjúkdóma og reynslu sína í baráttunni til bata. Með þáttöku í hóp sem þessum eflist eigin áhrifamáttur og stuðlar enn frekar að eigin bata.
Elín Ebba Ásmundsóttir forsvarsmaður starfar sem forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við Háskólann á Akureyri.
INGVAR E. SIGURÐSSON - leiðbeinandi
Útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990. Hann hefur leikið mörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið, Leikfélagi Reykjavíkur og hinum ýmsu sjálfstæðu leikhópum. Ingvar lék meðal annars í kvikmyndunum Inguló, Djöflaeyjunni, Perlum og svínum, Stikkfrí, Sporlaust, Englum alheimsins, Fálkum, K19, Stormviðri, Second nature og Kaldaljós. Ingvar er meðlimur í leikhópnum Vesturport sem setti upp hina margrómuðu Rómeó og Júlíu hér heima og erlendis.
JÓHANN INGI GUNNARSSON - leiðbeinandi
Jóhann Ingi er sálfræðingur. Hann lauk BA-prófi í sálfræði árið 1982 og embættisprófi í sálarfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi. Jóhann Ingi rekur eigin sálfræði- og ráðgjafarstofu í Garðabæ ásamt Sæmundi Hafsteinssyni. Hann starfaði lengi sem handknattleiksþjálfari og þjálfaði fremstu félög Þýskalands um sjö ára skeið. Einnig þjálfaði hann íslenska landsliðið um tíma. Jóhann Ingi hefur starfað mikið við ráðgjöf í fyrirtækjum og haldið samskiptanámskeið fyrir fyrirtæki og stofnanir bæði hér á landi og erlendis.
KRISTÍN EYSTEINSDÓTTIR – leikstjóri
Nam dramatúrgíu við Árósaháskóla. Kristín hefur starfað sem dramatúrgur og aðstoðarleikstjóri, meðal annars í Skáld leitar harms í Hafnarfjarðarleikhúsinu , Beyglum með öllu í Iðnó, í Jóni Oddi og Jóni Bjarna og Vegurinn brennur í Þjóðleikhúsinu. Fyrsta leikstjórnarverkefni hennar í atvinnuleikhúsi var Vinur minn heimsendir eftir Kristínu Ómarsdóttur sem Mink-leikhópurinn setti upp í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhúsið. Kristín er stundakennari við leiklistardeild Listaháskóla Íslands og framkvæmdastjóri Sjálfstæðu Leikhúsanna.
REYKVÍSKA LISTALEIKHÚSIÐ
Reykvíska Listaleikhúsið er sjálfstætt starfandi leikhús fjögurra leiklistarnema í Listaháskóla Íslands. Með stofnun þess viljum við nýta nám okkar í verki, ögra sjálfum okkur og öðlast nýja og víðtæka reynslu.
Fyrri verkefni eru m.a.
Líknarinn e. Brian Friel
Krádplíser e. Jón Atla Jónasson
Örlagaeggin e. Höskuld Ólafsson
Bambiland, samstarfsverkefni Vesturports og RLL-áætluð frumsýning jan.2006
JÖRUNDUR RAGNARSSON - leikari
Nemandi á 4. ári við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Tók þátt í uppfærslu á sýningunni Upprisa Holdsins með Stúdentaleikhúsinu 2001.
STEFÁN HALLUR STEFÁNSSON - leikari
Nemandi á 4.ári við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Stefán Hallur hefur komið víða við innan leikhússins. M.a. verið framkvæmdastjóri Leikskólans, Stúdentaleikhússins og Reykvíska Listaleikhússins sem öll eru sjálfstæð áhugaleikfélög auk þess að leika í fjölmörgum leikritum, auglýsingum og stuttmyndum. Stefán Hallur er Menningarstyrkhafi VISA fyrir leiklist árið 2005.
VIGNIR RAFN VALÞÓRSSON -leikari
Nemandi á 3. ári við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Vignir er stofnmeðlimur í leikfélaginu Tengdasynir sem m.a. setti upp sýninguna Áttu smit? sem vakti mikla athygli sumarið 2004.
HUGARAFL – UM VERKIÐ
∗Birt án leiðréttinga
Garðar Jónasson:
Stinni kemur úr heræfingarbúðum sem nýliði. Eina nóttina er honum nauðgað af hinum sem lengra eru komnir og verður þar á meðal fyrir niðurlægingu og lagður í einelti.
Maður spyr sjálfan sig hvers vegna leitaði hann ekki til stigamóta.
Hann segir pabba sinn “Ronny” frá þessu en Ronný, þessi stóra og sterka týpa, bregst illa við og segir Stinna helvítis aumingja sem sé að ljúga upp á félaga sína herinn er fyrir karlmenn og karlmenn fara ekki að væla.
Upp frá þessu dettur Stinni inn í sinn “geðveika heim” og lýtur svo á að Ronný sé ekkert pabbi hans og nauðgunin sem átti sér stað var einfaldlega yfirheysla því hann Stinni er svo merkilegur. Hann er jú sonur hans Georg Bush forseta Bandaríkjanna , og þessir Pentreitorar voru málaliðaliðar á vegum Saddams Hussein eða Osamma Bein ladens sem ætluðu að “blackmaimila” Georg Bush (Geðveikar Hugsanir)
Stinni er rekinn úr æfingarbúðunum eftir uppsteit og slagsmál við yfirmenn hersins.
Stinni leitar því fárveikur og niðurbrotinn á æskuslóðir til “besta vinar síns” . Hann leitar í þá upplifun þar sem sá “ stóri og sterki og Maggi sá góði. Vinur og forever.
Stinni er uppfullur af því þegar hann var í svarta herberginu og því sem átti sér stað þar.
Þegar Stinni kemur til Magga er Alli þar fyrir.
Samband Magga og Alla er eitthvað á þá leið tveir strákar sem leigja saman annar iðjuleysingi sem reykir og dópar mikið hugsar mikið um kynlíf og lítur á konur sem verkfæri skaufans.
Alli hann er þessi mýkri týpa sem reynir þó að hitta inn hjá hinum, hann er ekki hommi og er ekki þessi kallremba sem Maggi er..
Maggi er sífellt að skjóta einhverju á Alla m.a. að Alli sé hommi, og ýmis konar klám fengið efni sem hann er í sífellu að skjóta á Alla.
Það er eins og Maggi sé að fela sig bakvið eitthvað með því að vera að dópa og sífellt að tala um homma kjaftæði en Maggi er alltaf að skjóta því að Alla að Alli sé hommi en í raun kemur Maggi mer fyrir sjónir sem hommi. Þar sem hann felur tilfinningar sínar niður með því að vera að dópa sem meðal annars leiðir til þess að hann verður iðjuleysingi.
Bergþór Grétar Böðvarsson:
Stinni kemur í heræfingabúðir sem nýliði. Eina nóttina er honum nauðgað af hinum sem lengra eru komnir og verður þ.a.l. fyrir niðurlægingu og er lagður í einelti.
Hann segir pabba sínum "Ronný" frá þessu en Ronný, þessi stóra og sterka týpa, bregst illa við og segir Stinna helv. aumingja sem sé að ljúga upp á félaga sína, herinn er fyrir karlenn og karlemm fara ekki að væla.
Upp frá þessu dettur Stinni inn í sinn "geðveika heim" og lýtur svo á að Ronný sé ekkert pabbi hans og nauðgunin sem átti sér stað var einfaldlega yfirheyrsla því hann, Stinni, er svo merkilegur. Hann er jú sonur hans Georgs Bush, forseta Bandaríkjanna, og þessir Penetreitorar voru málaliðar á vegum Saddams Hussein eða Osama Bin Ladens sem ætluðu að "blackmaila" Georg Bush. (Geðveikar hugsanir)
Stinni sér eitthvað fallegt við Alla og hrýfst af honum en honum stendur samt sem áður einhver ógn af honum. Samband Magga og Alla er eitthvað á þá leið "tveir strákar sem leigja saman, annar
iðjuleysingi sem reykir og dópar mikið, hugsar mikið um kynlíf og lýtur á konur sem verkfæri skaufans. Hinn er þessi mjúka týpa sem reynir þó að fitta inn hjá hinum, hann er ekki hommi og er ekki þessi karlremba sem Maggi er. Því er erfitt að átta sig á því hvort Alli sé hommi eða ekki.
Alli er þessi týpa sem hefur ekkert of miklar áhyggjur af sinni kynhneigð, hann veit að hann hrýfst af stelpum meira en strákum, en hann skynjar líka að Maggi hefur einhvern áhuga á honum. Hann er undirgefinn hvað Magga varðar enda veit hann upp á sig sökina þar sem hann svaf hjá Láru fyrrverandi kærustunni hans.
Spurning hvort að Stinni sé hommi eður ei, hann upplifði jú kynferðislega stemmingu með Magga, en ég held að það sé ekki endilega það að hann sé hommi, heldur einhver væntumþykja og hlýja. Maður sem upplifir geðveikina svona sterkt á oft erfitt með að
átta sig á sinni kynhneigð. Geðsjúkir eru í sínum alvarlegustu veikindum oft að berjast við tilfinningar sínar og mörkin á milli "ástar og einhverrar
kynferðislegrar hvatar" eru oft mjög óskýr.
Þ.a.l. held ég að Stinni sé ekki hommi heldur maður sem leitar eftir væntumþykju en hann þarf jafnframt útrás fyrir sínar "geðveiku" kynferðislegu hugsanir. Ég held að Maggi sé hommi en hann skammast sín hrikalega fyrir þessar tilfinningar og hann gerir því allt sem hann getur til að refsa sjálfum sér og reyna að telja sjálfum sér í trú um að hann sé ekki hommi. Innst inni veit hann þó að hann er hommi.
KAFLI 3. – AÐFERÐAFRÆÐI
GAGNAÖFLUN / VERKLÝSING / FRAMVINDA
MAÍ – JÚNÍ 2005
Seinni hluti maímánaðar fór í undirbúningsvinnu. Vinnuaðstaða var fundin og kafað var í greiningarvinnu á leikritinu Penetrator (í ísl. Þýðingu Penetreitor) eftir Anthony Neilson út frá hinni gerðarlegu greiningu sem útskýrð var hér á undan og í viðauka. Kerfið gengur út á að skilgreina heim verksins og grunnlögmál/reglur þess heims. Finna baráttuna í verkinu og opna það.
Út frá auknum skilningi á efniviði verksins reyndist auðveldara að ræða
við fagaðila á jafningjagrundvelli.
Lagðar voru línur með Ingvari E. Sigurðssyni í byrjun júnímánaðar
varðandi þá leikrænu stefnu sem við vildum fylgja og hvernig best væri að
nálgast þátttakendur í rannsóknarvinnunni. Ákvörðun var tekin um að fara
ekki hefðbundnar leiðir í rannsóknarvinnu því málefnið væri viðkvæmt og
persónulegt. Fram kom ákveðin hræðsla þátttakenda við það hvernig best
væri að nálgast fólk með geðræn vandamál og reynslu af andlegu ofbeldi.
Einnig var rætt um fordóma heilbrigðisstéttarinnar gagnvart leikhúsinu og vinnuaðferðum þess. Ákvörðun var tekin um að reyna eftir fremsta megni að nýta okkur ekki viðmælendur okkar heldur láta þá nýta okkur. Hann benti okkur m.a. á að ræða við Ólaf Þór Ævarsson geðlækni og Kára Halldór Þórsson leikstjóra og kennara. Ólafur reyndist vera erlendis en ritari hans Ásdís Arnljótsdóttir spjallaði við okkur um 30 ára reynslu sína af andlegu og líkamlegu ofbeldi. Reyndist sá símafundur mjög gagnlegur þv hann fullvissaði okkur um að rétta leiðin til að tækla viðmælendur okkar væri ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut heldur frekar af heiðarleika og hreinskilni.
Kári Halldór leikstjóri gaf okkur einnig góð ráð. Hann benti okkur á að
mikilvægt væri að leyfa viðmælendum okkar að leiða vinnuna. Taka ekki
stjórnina heldur hugsa um viðmælendurna sem leikstjóra og höfunda.
Útlistaðar voru hugmyndir um vinnuaðferðir, m.a. að lesa senur fyrir
þátttakendur, umræðuhópar og einn-á-einn viðtöl.
Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri og dramatúrg hafði áður fengið leikritið
og rannsóknarlýsinguna til yfirlestrar og leituðum við til hennar á þeim
forsendum að skilgreina hina dramatúrgísku hlið rannsóknarinnar. Leist
Kristínu svo vel á verkefnið að hún bauðst til að leikstýra hugsanlegri
uppfærslu endurgjaldslaust. Þáðum við það með þökkum. Eftir nokkra fundi með henni ákváðum við að fókusinn á rannsóknarvinnunni ætti að vera á fólkinu sjálfu, viðmælendunum, en ekki að einblína á vandamálin sjálf. Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur staðfesti þetta því þó að geðrænir sjúkdómar og vandamál séu skilgreind í þaula þá eru þau alltaf einstaklingsbundin.
Ekki er gott að brennimerkja fólk með skilgreiningum og draga það í dilka heldur á frekar að tala við manneskjuna sjálfa, kanna forsögu og forsendur vandamálsins, ekki vandamálið sjálft.
Á þessum tímapunkti kom Hugarafl inn í verkefnið. Hittumst við á
hópfundi, var vel tekið, áhugi á verkefninu mikill og samstarfsmöguleikar
ræddir. Um er að ræða einstaklinga með mismunandi bakgrunn og
vandamál. Þessi fundur opnaði augu okkar fyrir þeirri staðreynd að við
vorum að fást við fólk en ekki tölur eða skilgreiningar. Ákveðið var að
Hugarafl kæmi inn í rannsóknarferlið á þann hátt að þátttakendur læsu
verkið og fylgdust með leikrænni vinnu. Litlir umræðuhópar voru
stofnaðir, 2 –3 manna sem skiptust á að vera viðstaddir æfingar og
samlestra. Ætlunin var að athuga hvort þátttakendurnir tengdust verkinu,
aðstæðum og atburðum.
Meðfram rannsóknarvinnunni var unnið að því að fínpússa þýðingu verksins úr ensku yfir á íslensku, unnið með tilvísanir í verkið út frá dagblöðum, kvikmyndum, sjónvarpi og fjöldamargir umræðufundir haldnir okkar á milli.
Einnig vorum við í sambandi við Margréti Ákadóttur dramaþerapista og voru möguleikar dramaþerapíunnar við vinnuna enn í mótun á þessum tímapunkti. Hitt Húsið –Total Ráðgjöf var okkur innan handar með bóklegan efnivið og gaf okkur góð ráð. Viðræður við Regnbogabörn voru styttra á veg komin því eineltishugtakið hefur þurft að víkja fyrir umfangsmikilli rannsóknarvinnu við hin geðrænu vandamál. Stefnan í júlí var því að halda áfram á þessarri braut, vinna náið með Hugarafli og öðlast dýpri skilning á fólkinu sem við vorum að vinna með.
JÚLÍ 2005
Hópurinn las leikritið Penetrator e. Anthony Neilson og tók þátt í greiningarvinnu og umræðum um það. Síðan var leikritið lesið fyrir
þennan hóp á samlestri í Tjarnarbíói í byrjun júlímánaðar. Út frá þeim
samlestri spunnust upp umræður um eðli verksins, hvort þýðingin stæðist
trúverðugleika og þá aðallega hvernig þau geðrænu vandamál sem persónur verksins glíma við kæmu þeim fyrir sjónir. Tveir einstaklingar í hópnum hafa verið að glíma við geðklofa í mörg ár og var átakanlegt að hlusta á þeirra eigin sjúkdómssögu og bera hana saman við sögu persónanna í leikritinu. Út frá þessum pælingum bjuggum við til forsögu persónanna út frá forsögum kjarnahópsins og reyndum að skilja
betur forsendur, markmið og vilja persónanna. Sú þekking og reynsla sem meðlimir Hugarafls búa yfir er ómetanleg viðbót við grunnvinnu leikara jafn dramatísku verki og Penetrator er.
Einnig var farið yfir hvernig sjúkdómseinkenni hjá geðklofasjúklingum lýsa sér að staðaldri, hvernig best er fyrir aðstandendur að takast á við sjúkdóminn og hvaða meðferð er í boði.
Kom sterklega fram í þessum umræðum að fólkið í Hugarafli hefur djúpan og víðtækan skilning á mannlegu eðli og hjálpuðu þau okkur mikið við að halda áfram með æfingaferlið.
Ákveðið var að para saman leikara og Hugaraflsmeðlim til að kafa betur
ofan í hverja persónu fyrir sig og skrifuðumst við og hittumst með vangaveltur um verkið sitt í hvoru lagi út mánuðinn.
Í samráði við Hugarafl og hvatningu frá þeim ákváðum við að næsta skref í stöðunni væri einfaldlega að æfa og sýna verkið, ekki þó sem fullbúna sýningu heldur til að halda áfram þeirri þróun sem nú hafði verið hrundið af stað. Halda boltanum gangandi, fara lengra með rannsóknarvinnuna og athuga hvort sú undirbúningsvinna sem nú þegar hafði verið unnin skilaði sér ekki upp á svið. Rökrétt skref og gagnlegt fyrir okkur sem leikara og ánægjulegt og vonandi gefandi fyrir Hugaraflsmeðlimi sem flestir, ef ekki allir, voru að koma bakdyramegin inn í leikhúsið í fyrsta sinn.
Eftir að hafa velt fyrir okkur nokkrum stöðum sem við gætum sýnt verkið fengum við inni í listamiðstöðinni Klink og Bank. Við komum okkur vel fyrir í kjallara hússins og byggðum þar litla “íbúð”. Til að gera
leikhúsupplifunina sem áhrifamesta rúmaði leikrýmið aðeins 30 áhorfendur, en einn tilgangurinn með því að setja verkið upp var einmitt að vekja fólk til umhugsunar, hafa eilítil áhrif á þankaganginn og vonandi varpa fram spurningum sem fólk vildi fá svör við.
Seinni hluti mánaðarins fór því einnig farið í verklegar framkvæmdir,
smíðar, ljósa– og hljóðvinnu, æfingar á verkinu og rennsli á
verkinu og hlutum úr því. Kjarnahópurinn okkar kom inn í þann hluta
verkefnisins sem snýr að æfingum og rennslum. Stefnan var að renna út mánuðinn með tilheyrandi umræðum og
vangaveltum og sýna um eða eftir mánaðarmótin júlí-ágúst.
ÁGÚST 2005
Upphaflega ætluðum við að sýna fjórum sinnum. Nota sýningarnar sem lið í rannsókninni til að athuga hvort samstarfið væri að skila sér upp á leiksviðið. Sýningarnar urðu alls 12 og ávallt var sýnt fyrir fullu húsi. Urðum við að hætta því að Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands var farið að skarast á við sýningarnar. Vel sóttur umræðufundur um vinnuna og leikritið var svo haldinn eftir eina sýninguna með aðstoð Hugarafls en einnig stefndum við að því að bjóða þeim félags-og forvarnarsamtökum, sem áttu erindi við verkið, sérstaklega á sýningar og efndum það með því að iðjuþálfar á geðsviði LSH fengu einkasýningu á verkinu auk þess sem fjöldamargir einstaklingar nutu góðs af tengslum við efnið.
Stefnan er að setja verkið upp aftur eftir áramótin 2005-2006 sökum fádæma góðrar eftirspurnar og mikilla vinsælda. Það er að vísu vandkvæðum bundið sökum þess að þátttakendur eru í skóla en reynt verður að finna flöt á því máli. Leikfélag Reykjavíkur hefur boðið okkur til samstarfs og eru þau mál í íhugun.
RAMMI VERKEFNIS
Listrænn rammi
Hugmyndin á bak við hina listrænu útfærslu var sú að farið var í
tilfinningalegt ferðalag með áhorfandann. Við kynntumst hinu harmræna í
lífi persónanna, einmanaleikanum og sorginni sem fylgir því að vera
tilfinningalega utanveltu í lífinu og áhrif þess á aðrar persónur.
Forsendur hins listræna ramma var sú að þátttakendur í verkefninu tóku virkan þátt með leikstjóra í hugmyndavinnu á öllum stigum.
Þýðing verksins var í höndum eins þátttakanda og leikara, Vignis Rafns Valþórssonar. Verkið var staðfært til Íslands til að tengja verkið betur við þann raunveruleika sem við búum í og við.
Tæknilegur rammi
Þáttakendur í verkefninu hlutu ráðgjöf frá fagmönnum í
leikmyndasmíði, búningahönnun og ljósa- og hljóðvinnu um tæknilegar
útfærslur og lausnir, bæði á undirbúningsstigi, svo og framkvæmdastigi.
Þátttakendur verkefnis sáu alfarið um tæknilega og útlitslega
útfærslu sýningarinnar.
Fjárhagslegur rammi
Nýsköpunarsjóður Námsmanna greiddi laun þátttakenda í verkinu. Þátttakendur/leikarar voru 3 en styrkur fékkst fyrir 2 þátttakendur þannig að öllum launum var deilt í þrjá hluta og skipt jafnt á milli. Við vonum að þetta brjóti ekki í bága við lög Nýsköpunarsjóðs og að engum verði meint af. Ákvörðun var tekin um að láta 500 krónur kosta inn á sýningar til að standa straum af efnis-og uppsetningarkostnaði sem hefur skilað sér til baka. Leikstjóri þáði enga greiðslu fyrir vinnu sína né tóku leikarar sýningalaun. Allur ágóði af sýningunni fer í að setja hana upp aftur eftir áramótin 2005-2006
Tímarammi
20. maí - Vinnuaðstaða fengin hjá Listaháskóla Íslands
27. maí – Ingvar E. Sigurðsson, undirbúningsfundur
2. júní – Fyrsti fundur með Kára Halldóri Þórssyni leikstjóra
3. júní – Fyrsti fundur með Kristínu Eysteinsdóttur, leikstjóra
14. júní – Hugarafl, fyrsti hópfundur að Drápuhlíð 14-16
15. júní – Fyrsti fundur með Jóhanni Inga Gunnarssyni, sálfræðingi
16.júní-8.júlí Undirbúningsvinna
9. júlí – Æfingar hefjast í Klink og Bank
7.ágúst – Frumsýning
8.ágúst– 2.sýning
9.ágúst – 3.sýning
11.ágúst – 4.sýning
12.ágúst – 5. sýning
13.ágúst – 6.sýning
16.ágúst – 7.sýning
17.ágúst – 8.sýning
18.ágúst – Umræðufundur
23.ágúst – 9 .sýning
24.ágúst – 10.sýning
31.ágúst – 11.sýning
1.Sept.– Lokasýning
KAFLI 4. – GREINING GAGNA
NIÐURSTÖÐUR
Rannsóknarspurningin var að komast að því hvort að samvinna af þessu tagi skili árangri og ef svo er, þá hvaða og fyrir hvern?
Til að geta svarað þessarri spurningu þurftum við fyrst að spyrja hvernig maður gæti mælt árangur af slíkri samvinnu, hvernig mælir maður til dæmis hvort að leiksýning sé góð eða ekki? Hvernig er hægt að sjá hvort samstarf sé árangursríkt eða ekki ef um er að ræða huglægt samstarf en ekki efnislegt?
Umræðufundurinn sem haldinn var 18. ágúst 2005 og fylgir með í viðauka á DVD diskinum gaf okkur greinargóða mynd ásamt því að Bergþór Grétar Böðvarsson, meðlimur Hugarafls tók að sér að ræða við nokkra meðlimi Hugarafls um þeirra reynslu af verkefninu.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að meðlimir Hugarafls nutu þess mikið að taka þátt í slíku samstarfi, að vera metin að verðleikum sem manneskjur sem höfðu eitthvað til málanna að leggja. Tekið var sérstaklega fram hve vænt þeim þótti um að þeirra innlegg og reynsla væri metin að verðleikum. Ítrekað var að þessi aðferð, að geðsjúkir miðli af reynslu sinni sem virkir þátttakendur í skapandi ferli, stuðli að jákvæðum batahorfum.
Fyrir leikarana var þetta mjög gefandi samstarf. Leikrænt séð dýpkaði persónusköpun til muna og hjálpaði til við að útskýra flókin samskiptaferli milli persónanna í verkinu. Reynslusögur Hugaraflsmeðlima dýpkuðu bakland persóna auk þess sem þau komu með mjög gagnlegar ábendingar varðandi hegðun, atferli og líkamsbeitingu. Fyrir leikara er þetta ómetanleg uppspretta heimilda sem hægt er að nýta sér. Forðabúr sem hægt er að sækja í upplýsingar og svör.
Hvað markmiðin snertir uppfylltum við þær kröfur sem við settum okkur í upphafi. Við náðum sambandi við hóp innan samfélagsins sem tengdist efni verksins. Við komum upp félagslegu tengslaneti sem virðist ætla að skila sér í enn frekari aðild Hugarafls að leikhúsinu því Ingvar E. Sigurðsson hefur boðið þeim að taka þátt í umræðum um efni og persónur verksins Woyzeck sem Vesturport leikhópurinn áætlar að sýna í Barbican leikhúsinu í London og Borgarleikhúsinu í vetur.
Umræðufundurinn sem samanstóð af þátttakendum verkefnisins, fagaðilum úr geðheilbrigðisgeiranum og áhorfendum sem séð höfðu verkið skapaði samskiptanet sem undirstrikaði fyrrgreindar niðurstöður. Að samstarfið hafði skilað af sér leikriti sem snerti við fólki og skóp umræðu um sálarheill okkar samfélags.
Iðjuþjálfar á geðsviði Landspítala-Háskólasjúkrahúss lögðu undir sig heila sýningu endurgjaldslaust ásamt því sem aðilar tengdir Hugarafli, Hinu Húsinu og óháðir nutu sömu forréttinda.
Sýningin sjálf og verkefnið naut mikillar fjölmiðlaathygli, orðspor hennar breiddist hratt út og skapaði umtal og forvitni.
Eftir að Hugarafl kom inn í verkefnið náðum við að skilgreina betur þau vandamál sem persónur verksins áttu við að etja, ekki bara geðveikina heldur
einnig vandamál sem tengdust einelti, meðvirkni, kúgun, stjórnun, mótþróa,
uppreisn, stjórnleysi, tillitsleysi o.fl.
Fólkið sem átti við geðræn vandamál að stríða, þekkti mannlegt eðli og breyskleika mjög vel og virtist hafa aðra og næmari sýn á það. Þetta gaf okkur gífurlega mikið inn í vinnu með persónusköpun, samskipti persónanna og færði okkur nær þeim veruleika sem persónurnar lifa í. Einnig reyndist þetta gefa meðlimum Hugarafls mikið.
Þau tjáðu sig mjög opinskátt og einlægt um vandamál sín sem geðsjúklingar en líka bara sem manneskjur. Þarna fannst því vettvangur þar sem geðveikt fólk gat tjáð sig um sín veikindi og daglegt líf við aðra en starfsmenn heilbrigðisstétta og því gaf það þeim annað hlutverk, sem var ráðgjafar við leikhús.
ÁVINNINGUR
Ávinningur verkefnisins er þjóðfélagslegur með því að efla hlutverk geðsjúkra við að hafa áhrif á eigin bata, samfélagshæfni og menningarvitund og efla þannig mann- og félagsauð.
Mannauður byggist á menntun og þjálfun einstaklinga. Félagsauður byggist á tengslum á milli manna, trausti, hjálpsemi og aðstoð.
Einnig er ávinningur verkefnisins að nýta reynslu geðsjúkra í listsköpun og skapa þannig nýjan vettvang fyrir krafta þeirra. Auk þess að leiklistarnemar fái tækifæri til að vinna með geðsjúkum á jafningjagrundvelli sem nýtist þeim til skilnings á mannlegu eðli, óravíddum hugarfylgsnanna, persónusköpunar, karaktervinnu o.s.frv. og nýtist þeim sem fagaðilum í framtíðinni.
Mögulegt er að nýta niðurstöður þessa verkefnis til að auka vitund almennings um geðheilbrigði og draga þannig úr fordómum í garð geðsjúkra með því að sýna fram á hvað þeir eru færir um að leggja af mörkum til samfélagsins.
KAFLI 5. – UMRÆÐUR / NIÐURLAG
UPPLIFANIR EINSTAKLINGA Í HUGARAFLI
∗ Birt án leiðréttinga
Svava Ingþórsdóttir:
Mér fannst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt hlutverk,
að kenna öðrum að vera geðveikur. Mér fannst ég geta
skilað mínu og það var mjög gaman að sjá hvað leikararnir
drukku í sig efnið af áhuga. Ég vildi bara að læknarnir
hefðu sama áhuga :) Svona geðveikt leikrit er gott fyrir
samfélagið að sjá, svo menn geta sleppt allri háttvísi og
siðpríði og talað af alvöru um geðveikina, án þess að
roðna. Ég held að samstarfsmenn mínir séu sammála mér í
því.
Það sem ég reyndi að kenna þeim var að geðklofar lifa oft
á tíðum tvöföldu lífi í þeim skilningi að þeir lifa í
sínum ýmindaða heimi og í raunveruleikanum, margir heyra
raddir eins og ég sem á sér ekki stað í raunveruleikanum.
Þessar raddir taka oft stjórnina og fara að segja manni
fyrir verkum og hafa ákveðnar skoðanir um mann og aðra
menn. Þær benda manni á að engum sé treystandi og maður
trúir þeim því þær eru jafn raunverulegar fyrir mann og þú
og ég - og stóllin sem ég sit á.
Takk fyrir
Garðar Jónasson:
Persónuleg upplifun mín á verkinu
Það var alveg sérstök upplifun og ákveðinn forréttindi að hafa fengið að vera þáttakandi í þessu verki, fyrst lesa verkið yfir síðan að lesa verkið yfir með leikurum mæta á æfingar og geta komið með athugasemdir sem voru svo sannarlega vel þegar, efir sýningu þar sem leikendur settust niður með okkur og fóru yfir leikritið með okkur hvað mætti bæta.
Þetta er áhrifamikið leikrit og sérstök upplifun af fá að vera þáttakandi í mótun verksins sýnir að leikendur eru að fara nýjar leiðir til að nálgast þann veruleika sem leikrit þeirra byggist á. Leitað fanga utan hins ramma sem leikendur eru vanir að fara.nýtt á þeim vettvangi sem reynslan er fyrir hendi.
það má með sannri segja að leikendurnir hafi verið fróðleiksfúsir, og ekki á hverjum degi sem þeir fá að kynnast hugarheimi þeirra sem þeir leika “enda hafa þeir sem eru með geðræn vandamál að stríða sérstakan hugarheim sem ekki verður tekin frá þeim”
Leikendum tekst á frábærlega hátt að skila þessu verki til áhorfenda, á sérstaklega áhrifaríkan hátt sem varla er hægt að lýsa með orðum nema frábært í alla staði.
Bergþór Grétar Böðvarsson:
Að fá að taka þátt í þessu verkefni var alveg frábær upplifun.
Fyrst ber að nefna þann heiður þau, sem stóðu að þessu verkefni, sýndu okkur með því að leita til okkar.
Mér fannst líka gaman að sjá hvað þau voru áhugasöm um alla okkar geðrænu kvilla og áhugasöm um að fá að vita hvað okkur fannst um þetta.
Þar sem ég er bæði greindur með geðhvarfasýki og bý með konu sem er greind með geðklofa, þá fannst mér ég hafa mikið til málana að leggja.
Útkoman fannst mér takast alveg frábærlega vel og þeir strákarnir stóðu sig frábærlega í sínum hlutverkum.
Það er alls ekki auðvelt að setja sig inn í heim geðsjúkra og aðstandenda þeirra. Til þess að það sé hægt verður maður að vera rosalega einbeittur á það sem er að gerast í kollinum á manni og trúa á það sem maður er að gera.
Mér fannst strákarnir ná að setja sig rosalega vel inn í þennan heim og ég er alveg viss um að þetta hefur ekki verið auðvelt fyrir þá. Þeir hafa örugglega verið dágóðan tíma að ná sér niður eftir hverja sýningu.
Þetta líka sýnir okkur það að geðveikin er í okkur öllum, sumir þurfa að hemja sig til að reyna að takast á við hana, en aðrir þurfa bara að einbeita sér og leyfa henni að gossa.
Takk fyrir frábæra upplifun og gott samstarf.
Elín Ebba Ásmundsdóttir:
Umsögn um samstarf Hugaraflsmanna og leiklistanema varðandi nýsköpunarverkefni námsmanna Penetrator.
Elínu Ebba Ásmundsdóttur er meðlimur í Hugarafli og starfar sem forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA
Á síðustu árum hef ég reynt að markaðsetja geðið sem eitthvað jákvætt og þar með einnig einstaklinga sem stríða við geðsjúkdóm.
Frumkvæði um samstarf hefur samt alltaf verið okkar megin, það er afar sjaldgæft að fólki komi til okkar og óski eftir samstarfi.
Því kom það svo á óvart þegar ég frétti að ungir leiklistanemar hefði reynt að komast í samband við Hugarafl og hefðu áhuga á samstarfi.
Á fyrsta fundi hittu Hugaraflsmenn þrjá áhugasama leiklistarnema sem voru fullir af orku og eftirvæntingu.
Þeir sýndu hópnum einlægan áhuga og ekki fór á milli mála að þeir sáu verðmætin í reynslu geðsjúkra.
Þegar ég leit yfir handritið og hlustaði á fyrsta yfirlesturinn leist mér ekki á blikuna. Leikritið var gróft, ljót orð voru notuð og mikil átök.
Myndi einhver vilja sjá þetta? Gæti ég boðið mömmu minni og strákunum mínum á unglingsaldri að sjá stykkið?
En við vorum komin út í miðja á og ekki þýddi að snúa við.
Samstarfið við leiklistarnemana og leikstjóran var afar gefandi. Unnið var á jafningagrundvelli og án fordóma sem ekki er sjálfgefið þegar geðsjúkir eiga í hlut.
Þau hlutverk sem geðsjúkir eru oftast í er að taka við fróðleik og ráðleggingum frá öðrum. Hlutverkin í þessu samstarfi snérust við.
Þekking Hugaraflsmanna var í forgrunni. Þau voru sérfræðingarnir og miðluðu af reynslu sinni.
Þau tóku afstöðu til hvað væri trúverðugt og á hvern hátt menn haga sér í ákveðum aðstæðum.
Leikritið varð ekki lengur ljótt, ofbeldisfullt né fór yfir siðferðisleg mörk. Leikritið varð raunveruegt.
Ég sá sýninguna nokkrum sinnum og hún snart mig í hvert einasta skiptið.
Ég bauð mínun nánustu á hana því hún fjallaði um raunveruleikann.
Afrakstur samstarfsins var stórkostleg og það spurðist út. Allir sem heyrt höfðu um leikritið vildu koma að sjá og fá að upplifa sýninguna.
Leikararnir og leikstjórinn eru hæfileikarík og hefðu gert góða sýningu án okkar í Hugarafli.
En samstarfi við Hugarafl skapaði kannski meiri forvitni, eftirvæntingu og tengingu við lífið sem er svo mikilvægt í leikhúsi.
Leiklistarnemarnir sýndu líka almenningi að í reynslu geðsjúkra felast verðmæti.
Samstarfið opnaði líka gátt á milli ólíkra hópa sem hingað til hafa ekki unnið saman - leiklistarnemar - leikarar - geðsjúkir - fagaðilar.
Þeir víkkuðu enn samstafið með að bjóða almenningi til opins fundar þar sem leikritið og boðskapur þess voru rædd.
Umræðan var jafn opinská og leikritið.
Ég óska nýsköpunarsjóði námsmanna til hamingju með að hafa veðjað á þessa ungu menn. Þeir höfðu kjark til að takast á við
leikrit sem var á "mörkunum", höfðu kjark til að vinna með fólki sem tilheyrir "jaðrinum", og tókust á við krefjandi hlutverk.
Ungur blaðamaður hjá Morgunblaðinu valdi sem yfirsögn á grein sinni þar sem hann fjallaði um verkið Penetrator og samstarf Hugaraflmanna og umræðufundinn sem fyldgi í kjölfarið; "Bylting í íslensku leikhúsi". Hann varð fyrir áhrifum á sama hátt og ég. Verkið sat fast í huga manns, hreyfði við manni, það var eitthvað nýtt þarna á ferðinni, ögrandi, eitthvað persónulegt, eitthvað sem fékk mann til að hugsa um samskipti mannskepnunnar og fjölbreytileika mannlífsins.
UPPLIFANIR NEMA
Fyrir okkur sem leiklistarnema var þetta ferli allt ómetanlegt. Við
þroskuðumst allir sem listamenn og samstarfið við Hugarafl opnaði
dyr að möguleikum sem að við vissum ekki að væru til staðar. Að fá fólk
sem er með reynslu af viðfangsefninu til að vinna beint með leikurunum
færir leikhúsið upp á nýtt og æðra plan. Fyrir utan það að hafa kynnst
svona mikið af góðu fólki til að vinna með þá held ég að við göngum allir
frá þessu samstarfi sem betri manneskjur. Þegar við mættum á fyrsta
fundinn með Hugarafli vissum við ekki hverju við ættum von á, enginn okkar
hafði áður átt samneyti við geðsjúkt fólk og í sannleika sagt vorum
við svolítið varir um okkur. En það hvarf mjög fljótt eftir að fundurinn
hófst. Allar vangaveltur um hvaða orðalag væri “réttast” að nota eða
“hvernig” þessi væri, fuku út í veður og vind.
Eftir fundinn vissum við að við vorum á réttri braut. Þarna var fólk sem að vissi nákvæmlega hvar það stóð gagnvart sjúkdómi sínum og við fundum að við
þurftum ekkert að passa orðaval eða annað slíkt, þetta var fólk sem að við
gátum treyst til að segja okkur hvernig hlutirnir eru og draga ekkert
undan.
Hvað varðar uppsetninguna sjálfa þá var það frábær reynsla að vera allir
saman allt í öllu. Við hönnuðum leikmynd, smíðuðum hana, byggðum
áhorfendabekki, stilltum ljós, fundum leikmuni og gerðum leikskrá.
Fyrir utan það að æfa upp sjálft verkið.
Þarna vorum við að búa til sýningu á okkar eigin forsendum fyrir litla sem
enga peninga. Sýningu sem, að okkar mati, stenst fullkomlega samanburð við atvinnumannasýningar. Viðbrögðin við sýningunni komu okkur
skemmtilega á óvart og höfðu margir orð á því að mikil vöntun sé á
sýningum sem þessari. Það er, sem sagt, hægt að vinna vandaðar sýningar, hratt og án mikils tilkostnaðar. Að vinna kerfisbundið eftir óhefðbundnum leiðum við uppfærslur leikrita ber áberandi árangur.
Það er því mjög líklegt að í umhverfi okkar, á hverjum degi, rekumst við á fólk á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins sem glímir við geðræna sjúkdóma . Á bak við andlit þessa fólks leynast hinar ótrúlegustu sögur, fullar af sorgum og sigrum.
Við viljum auka víðsýni, stækka reynsluheim okkar og stuðla að opnari samskiptum og umræðu um andleg/geðræn málefni og vandamál.
EFNISYFIRLIT
KAFLI 1.
INNGANGUR /HVATI
1. MARKMIÐ / FORSENDUR / ÚTGANGSPUNKTAR
2. NÝSKÖPUNARGILDI
3. RANNSÓKNARAÐFERÐ
KAFLI 2.
HEIMILDASAMANTEKT
1. HÖFUNDURINN
2. HEIMUR VERKSINS
3. VERKIÐ
4. SKILGREINING VERKSINS
5. ÞÁTTTAKENDUR
6. HUGARAFL - UM VERKIÐ
KAFLI 3.
AÐFERÐAFRÆÐI
1. GAGNAÖFLUN / VERKLÝSING / FRAMVINDA
2. RAMMI VERKEFNIS
KAFLI 4.
GREINING GAGNA
1. NIÐURSTÖÐUR
2. ÁVINNINGUR
KAFLI 5.
UMRÆÐA OG NIÐURLAG
1. UPPLIFANIR EINSTAKLINGA Í HUGARAFLI
2. UPPLIFANIR NEMA
ÁGRIP
Talið er að um 50.000 Íslendingar eldri en fimm ára eða 22% þjóðarinnar eigi við geðræn vandamál að stríða.
Það er því mjög líklegt að í umhverfi okkar, á hverjum degi, rekumst við á fólk á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins sem glímir við geðræna sjúkdóma . Á bak við andlit þessa fólks leynast hinar ótrúlegustu sögur, fullar af sorgum og sigrum.
Við viljum auka víðsýni, stækka reynsluheim okkar og stuðla að opnari samskiptum og umræðu um andleg/geðræn málefni og vandamál.
Við viljum fjalla um leyndarmálin í samfélaginu. Það sem ekki
má tala um en mótar okkur. Við viljum skilja betur það samfélag sem
við búum í og miðla þeim skilningi til annarra í gegnum það listform
sem við þekkjum best: Leikhúsið.
Fyrir okkur er leikhúsið miðill til að vekja fólk til umhugsunar um umhverfi sitt og þann raunveruleika sem það býr með. Að segja sögu er kraftmikil og áhrifarík leið til að ná til fólks.
KAFLI 1.
INNGANGUR
Útgangspunktur verkefnisins gengur út á að leiklistarnemar við leiklistardeild Listaháskóla Íslands vinna með fólki sem tengist beint eða óbeint andlegu ofbeldi, einelti og geðrænum vandamálum. Þeir samstarfsaðilar sem veljast taka virkan þátt í uppfærslu leikrits sem fjallar um framangreind málefni. Ekki sem leikarar, heldur sem virkir, gagnrýnir áhorfendur sem miðlað geta af eigin reynslu. Upphafleg stefna var að vinna eftir dramaþerapískum forsendum til að virkja þátttakendur í ferlinu en eftir því sem á leið reyndist ekki þörf á því þar sem nægur samstarfsvilji var fyrir hendi hjá báðum aðilum. Vonir voru bundnar við að samsvörun við eigið líf og reynslu myndi skila sér í auknum skilningi og fræðslu til þeirra sem hafa verið beittir eða hafa beitt andlegu ofbeldi eða kúgun, lent í einelti eða glíma við geðræn vandamál. Ennfremur gekk rannsóknin út á að kanna hvort slikt samstarf gengi yfirleitt upp og hver ávinningurinn yrði, ef nokkur.
Leikverkið Penetrator eftir skoska leikskáldið Anthony Neilsson varð fyrir valinu. Kafað var í greiningarvinnu. Heimur verksins skilgreindur og verkið opnað. Augljósar tengingar við geðhvarfasýki, meðvirkni, einelti, stjórnun og stjórnleysi og kúgun hjálpaði okkur að tengja leikritið sjálft við rannsóknarefnið.
Samstarf myndaðist við Hugarafl, hóp fólks með geðræn vandamál sem leitar óhefðbundinna batalausna og hafnar, upp að vissu marki, hinum svokölluðu kerfislausnum þar sem þau álíta að manneskjan/einstaklingurinn gleymist.
Kjarnahópur sem samanstóð af fimm ólíkum einstaklingum, körlum og konum á aldrinum 22–64 ára sem öll glíma við geðræn vandamál, þ.m.t. geðklofa, þunglyndi, kvíðaröskun og geðhvarfasýki, las leikritið, horfði á rennsli. Ennfremur tók hópurinn þátt í greiningarvinnu og umræðum um eðli verksins, hugaði að hvort þýðingin stæðist trúverðugleika en þó aðallega hvernig þau geðrænu vandamál sem persónur verksins glíma við kæmu þeim fyrir sjónir.
Skemmst er frá því að segja að fólkið hafi kannast við mörg einkenni, takta, hegðun, atferli og aðstæður í verkinu og þá sérstaklega út frá geðklofahegðun sem er eitt aðalumfjöllunarefnið í verkinu. Samsvaranir voru allmargar og ánægjulegt var að finna að fólkið var tilbúið að deila með okkur reynslu sem flestum er hulin.
Þátttakendum reyndist auðvelt að tjá sig opinskátt um sínar aðstæður og forsögu, aðallega sökum þess að fókusinn var ekki á þeim sjálfum og þeirra sálarheill og á þeirra “vandamálum” heldur nýttust þeirra punktar og dæmi sem uppbyggilegt innlegg í hina listrænu vinnu.
Penetreitor var sýnt 12 sinnum fyrir fullu húsi í Listamiðstöðinni Klink og Bank undir nafninu Reykvíska Listaleikhúsið. Leikstjórn var í höndum Kristínar Eysteinsdóttur.
MARKMIÐ / FORSENDUR / ÚTG.PUNKTAR
RANNSÓKNARSPURNINGIN
Að komast að því hvort samvinna af þessu tagi skilar árangri og ef svo er, þá hvaða og fyrir hvern?
MARKMIÐ
o Að þolendur og gerendur andlegs ofbeldis, eineltis og kúgunar og fólk sem glímir við geðræna sjúkdóma, fræðist og takist á við reynslu sína sem virkir þátttakendur í skapandi ferli, unnu út frá leikverki um sams konar málefni.
o Að koma upp félagslegu tengslaneti í kringum verkefnið. Að ná sambandi við þá hópa innan samfélagsins sem tengjast efni leikveksins. Hér er um að ræða forvarnarsamtök, félagasamtök og miðstöðvar og hjálparsamtök sem einbeita sér að fólki sem glímir við samfélagsleg vandamál.
o Að koma upp samskiptaneti um efni verksins, umræður að loknum sýningum og endurgjaldslausum sýningum fyrir þá samfélagshópa sem gætu haft félagslegan ávinning af boðskapnum.
o Efla hlutverk geðsjúkra við að hafa áhrif á menningarlegt umhverfi sitt og efla þannig mann- og félagsauð.
o Að skapa hlutverk fyrir fólk með reynslu af geðsjúkdómum með þátttöku í verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á bata.
o Að vinna gegn fordómum í garð geðsjúkra hvað varðar þátttöku í verkefnum á sviði menningar og lista.
Samfélag okkar byggist upp á samskiptum einstaklinga. Þessi samskipti eru jafnmargvísleg og mennirnir eru margir. Niðurdrepandi og skaðandi samskipti einstaklinga skaða samfélagið því einstaklingarnir verða óvirkir þátttakendur. Við vildum skoða þessi samskipti og draga þau fram í dagsljósið. Við vildum skapa umræðu um sálarheill okkar samfélags.
Markhópar verkefnisins eru samfélagshópar sem glíma við félagslega einangrun eða útskúfun af einhverju tagi og meðlimir forvarnasamtaka og félagssamtaka sem vinna að samfélagslegum vandamálum líkt og geðsjúkdómum og andlegu ofbeldi.
NÝSKÖPUNARGILDI
Verkefni sem þetta hefur gildi í nýsköpun á fjölmörgum sviðum, fyrir samfélagið, fræða-og menningarsviðið, leiklistarnema og einstaklinga með geðraskanir.
Sem nýsköpun fyrir samfélagið fá geðsjúkir einstaklingar tækifæri út frá eigin forsendum þar sem þeirra hugsun og skoðanir skipta máli fyrir heildarútkomu leikverks. Þeir vinna verk sem hefur einnig gildi fyrir þá. Ein hugmyndafræði iðjuþjálfunar (MOHO) byggist á því að einstaklingar vinni útfrá eigin gildum og fái hlutverk við hæfi. Þannig fá þeir tækifæri frá umhverfinu til að spreyta sig í því sem skiptir þá máli.
Geðsjúkir sem hafa veikst og náð bata hafa reynslu sem skapar verðmæti fyrir menningarlífið og samfélagið í heild. Sem nýsköpun fyrir fræðasviðið eru geðsjúkir í samvinnu eða viðræðum við leiklistarnema á jafningjagrundvelli að vinna á skipulagðan hátt að sameiginlegu markmiði, uppsetningu leikverks þar sem forsögur, hegðun og atferli persónanna grundvallast að mörgu leyti á skilningi fyrrnefnda hópsins. Þar af leiðandi er verið að ná fram upplýsingum sem væru jafnvel ekki að koma fram ef aðstæður væru aðrar, líkt og viðtöl við fagaðila. Verkefni þetta er einnig nýsköpun fyrir leiklistarnema. Í gegnum það hafa nemarnir öðlast ómetanlegan skilning og reynslu á mjög brothættum viðfangsefnum sem dýpkar til muna þá persónusköpun sem leitast var eftir.
Einnig hefur þetta verkefni nýsköpunargildi í eflingu mann- og félagsauðs með samstarfi geðsjúkra og leiklistarnema. Í tveimur rannsóknum og könnun á viðhorfum geðsjúkra til atvinnuþátttöku sem Elín Ebba Ásmundsdóttir stýrði kom fram að geðsjúkir telja atvinnuþátttöku eiga stóran þátt í því að ná bata í sínum geðsjúkdómi. Í 70% tilvika töldu þátttakendur vinnuhlutverkið vera mikilvægasta hlutverkið, fyrir flesta var það lífsspursmál og töldu notendur að ef þau væru ekki í vinnu myndu þau veikjast og þyrftu að leggjast inn á sjúkradeild. Niðurstöður gáfu til kynna að vinnan væri lykilhlutverk sem veitti þeim tækifæri til að vera virkir þjóðfélagsþegnar. Á þessum rannsóknum má sjá mikilvægi þess fyrir geðsjúka að taka þátt í verkefnum sem höfða til þeirra þar sem þeir fá tækifæri til að vera virkir og hafa áhrif í samfélaginu. Geðsjúkir einstaklingar í bata sem ekki eru tilbúnir út á almennan vinnumarkað vilja fá verkefni sem hafa þýðingu fyrir þá þannig að reynsla þeirra af geðsjúkdómum nýtist.
Nýsköpunin felst þó fyrst og fremst í því að skapa nýjan starfsvettvang og umhverfi fyrir fólk með reynslu af geðsjúkdómum og samfélagslegum vandamálum. Nýr vettvangur og tækifæri fyrir einstaklinga til að nýta sínar sterku hliðar, hæfileika, nám og reynslu. Með þátttöku í hópi á þessum vettvangi eflist eigin áhrifamáttur og hann stuðlar enn frekar að bata og auknum skilningi.
RANNSÓKNARAÐFERÐ
Rannsóknaraðferð verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar snýr hún að hinum leikræna hluta og hins vegar að því sem snýr að samstarfi leiklistarnema og Hugarafls.
Grunnvinna hins leikræna hluta fór fram eftir kerfi sem nefnt hefur verið Hin gerðarlega greining, sem útskýrð er nánar í viðauka en gengur öllu fremur út á að þýða eitt listform s.s. bókmenntir og leikritun yfir á tungumál annarrar listgreinar , þ.e. sviðslistar. Kerfið gengur út á að skilgreina heim verksins og hvaða grunnlögmál og reglur eru við lýði í þeim heimi. Ennfremur gengur kerfið út á að skapa grundvöll til lífrænnar leikrænnar tjáningar og aukins skilnings á persónum verksins. Út frá þessari greiningu opnuðust margar dyr og tengingar við m.a. geðhvarfasýki, meðvirkni, einelti, stjórnun og stjórnleysi og kúgun hjálpaði hún okkur að tengja leikritið sjálft við rannsóknarefnið. Nánari útlistun á kerfinu er að finna í viðauka. Út frá auknum skilningi á efniviði verksins reyndist auðveldara að ræða við fagaðila á geðheilbrigðissviði og fagmenntað leiklistarfólk á jafningjagrundvelli og útlista framkvæmd samstarfsins.
Samstarfið skyldi vinna útfrá hópvinnu, samlestrum á verkinu, þátttöku á rennslum, viðtölum bæði við hópa og einstaklinga.
Forvarnar- og félagssamtök líkt og Hugarafl sæju um mannkost, efni og upplýsingar. Sálfræðingur, geðlæknir og dramaþerapisti hefðu umsjón með aðferðafræði hópvinnu og ynnu viðtalstækni fyrir og úrvinnslu eftir. Dramatúrg hefði það hlutverk að aðstoða við að nýta úrvinnslu hópvinnu og viðtala til leikrænnar úrvinnslu. Leikstjórinn hefði heildarsýn leikverks á sinni könnu en leiðbeinandi heildarsýn verkefnisins.
Þó að lagt hafi verið upp með dramaþerapíuna sem vinnutæki þróaðist verkefnið frá þeirri forsendu þar sem kom í ljós að hefðbundnari aðferðir til hópvinnu hentuðu betur.
Úrvinnsla gagna fór fram með spurningalistum og umræðufundum.
Leikstjóri og dramatúrg: Kristín Eysteinsdóttir
Sálfræðingur: Jóhann Ingi Gunnarsson
Leiðbeinandi : Ingvar E. Sigurðsson
Ráðgjafar: Kári Halldór Þórsson, Elín Ebba Ásmundsdóttir,
Auður Axelsdóttir, meðlimir Hugarafls,
Héðinn Unnsteinsson
Leikarar: Jörundur Ragnarsson, Vignir Rafn Valþórsson, Stefán Hallur Stefánsson
KAFLI 2. - HEIMILDASAMANTEKT
HÖFUNDURINN
Anthony Neilson fæddist í mars 1967 í Edinborg, Skotlandi. Hann er af
leikhúsfólki kominn og ólst svo að segja upp í leikhúsinu. Eftir frekar
brokkgenga skólagöngu fór hann í leiklistarskóla í Edinborg en var rekinn
eftir eitt ár. Neilson fór þá að skrifa útvarpsleikrit og sigraði
ungskáldakeppni á vegum BBC. Hann vakti fyrst á athygli á
Edinborgarhátíðinni árið 1991 með leikritinu Normal, sem fjallaði um
fjöldamorðingja. Tveim árum seinna setti hann tóninn fyrir bresku
nýbylgjuna með leikritinu Penetrator árið 1993 og skipaði sér þar með í flokk með höfundum eins og Söru Kane og Mark Ravenhill. Leikrit Neilsons eiga það
öll sameiginlegt að vera hrá og hröð og vera til þess fallin að koma
áhorfandanum á óvart. Anthony Neilson hefur skrifað á annan tug leikrita
fyrir svið og útvarp og hlaut nýverið bresk leikhúsverðlaun fyrir nýjasta
verk sitt, Stitched.
HEIMUR VERKSINS
Hugtakið “In-yer-face” er skilgreint af New Oxford English Dictionary
(1998) sem: “something blatantly agressive or provocative, imposbible to ignore or avoid”
Á tíunda áratug síðustu aldar braust fram í bresku leikhúslífi ný
leikhússtefna sem fékk skilgreininguna In-yer-face! Hugtakið In-yer-face
er notað yfir eitthvað ögrandi og agressíft, þegar eitthvað gerist sem að
þú neyðist til að meðtaka, þegar farið er inn á þitt persónulega svæði,
þegar farið er yfir strikið. Hin nýju leikrit áttu það sameiginlegt að
vera skrifuð af frekar ungu fólki og fjalla á opinskáan hátt um líf þeirra
og þá heima sem þau búa í. Þetta voru flestallt frekar ofbeldisfull verk
með grófu málfari og einblíndu á kynlíf og hið forboðna. Auðvitað er hið
forboðna ekki ósnertur flötur í leiklistarsögunni og hafa mörg leikskáld
hreinlega gert út á að brjóta hin ýmsu tabú. Meira að segja meistari
Shakespeare notaði mannát, samkynhneigð, nauðganir, morð og fleira til að
krydda verkin sín, svo ekki sé nú minnst á blessaða Grikkina.
En In-yer-face kynslóðin leitaði samt frekar í viskubrunna manna eins og
Alfred Jarry, Antonin Artaud, Samuel Beckett, Bertold Brecht John Osborne
ofl. Menn sem þorðu að breyta út af “vananum” og skrifa leikrit sem að
höfðu áhrif.
In-yer-face leikhúsið gengur út á að vekja áhorfandann til umhugsunar með sjokki, sýna honum hvað heimurinn getur verið ljótur á mjög opinskáan
hátt, nota óheflað tungumál og ógeðfelldar aðstæður til að hrista upp í
öruggum heimi hins almenna áhorfanda. Fæst In-yer-face leikrit reyna að
sýna hlutina á hlutlausan hátt og leyfa áhorfandanum að mynda sér skoðun.
Þvert á móti reyna þau að fá áhorfandann til finna fyrir tilfinningunum
sem eru í gangi á sviðinu og taka þátt í þeim.
Það var nákvæmlega þetta sem heillaði okkur í upphafi og okkur fannst vanta í íslenskt leikhúslíf. Við vorum orðnir þreyttir á að sitja öruggir út í myrkrinu í salnum og horfa á leikara fara með textann sinn í margra metra fjarlægð, alveg jafn öruggir og áhorfendurnir. Okkur langaði sem leikara að upplifa nálægðina við áhorfendur, mynda tengingu við þá, hafa áhrif. Taka öryggið frá þeim og láta þá upplifa eitthvað nýtt.
Enginn átti að labba út óbreyttur. En hvernig? Eftir nokkra leit duttum
við niður á leikritið Penetrator. Í því fundum við allt sem við
leituðum að. Það fjallaði um þrjá vini á sama aldri og við erum, þeir
tala sama tungumál og við og voru að kljást við vandamál sem við áttum
auðvelt með að tengja okkur við. Þegar leikritið sjálft
var fundið lögðumst við í að þýða það og staðfæra. Það gerðum við til að
gefa áhorfandanum ekki færi á að fjarlægja sig frá aðstæðunum og
umhverfinu og til að sýna að efnistök verksins eiga heima jafnt á Íslandi
sem og annars staðar.
Því næst þurftum við húsnæði. Við hófum æfingar í Tjarnarbíói en fundum mjög fljótt að við myndum ekki ná að skapa það
andrúmsloft sem að við vorum að leita að þar. Við fórum þá á fund
forráðamanna listamiðstöðvarinnar Klink og Bank og fengum inni hjá þeim í
stórum sal sem við minnkuðum um helming til að halda í nálægðina.
Leikmyndina reyndum við að gera eins raunverulega og við gátum, svo að
áhorfandinn fengi það á tilfinninguna að hann væri staddur í alvöru íbúð
en ekki á leiksýningu.
VERKIÐ
Verkið fjallar um þrjá unga menn. Tveir þeirra, Maggi og
Alli, leigja saman litla íbúð og og framan af leikritinu erum við að
fylgjast með þeim og þeirra sambúð. Þeir lifa, að því er virðist,
hálf tilgangslausu lífi, samræðurnar snúast um skemmtanir, kvennafar, gamla
“glæsta” tíma og fyrrverandi kærustur, inn á milli skiptast þeir svo á
grófum karlahúmor og drekka og dópa. Það dregur til tíðinda þegar gamall vinur þeirra, Stinni, bankar upp á. Hann er nýkominn úr hernum og hefur ekki séð þá í nokkur ár. Það kemur fljótlega í ljós að Stinni og Maggi hafa verið vinir síðan í barnæsku og tengjast sterkum böndum. Alli hefur hins vegar komið seinna inn í þennan vinahóp.
Alli er ekki hrifinn af því að hafa Stinna en Maggi tekur
ekki annað í mál en að leyfa honum að gista. Stinni er ekki búinn að vera
lengi í heimsókn þegar kemur í ljós að hann er ekki í góðu andlegu jafnvægi. Hann segir þeim ótrúlegar sögur um Penetreitora sem séu að eltast við hann og
hafi verið að misnota hann kynferðislega. Hann sveiflast fram og til baka
í því að vera árásargjarn, hvass og uppstökkur og undirlægur, aumur og
viðkvæmur. Maggi og Alli bregðast við, hvor á sinn hátt og stendur ekki á
sama, allavega stundum. Þegar Stinni dregur upp hníf til að sanna mál
sitt fara málin að æsast og enda með því að Stinni heldur Alla föstum
tökum og ógnar þeim báðum lífshættulega. Með þessu fær hann Magga til að
rifja upp erfiða og óþægilega minningu um kynferðislega stund sem hann og
Stinni áttu saman sem börn.
Þegar þessi saga kemur upp á yfirborðið róast Stinni og brotnar niður. Í kjölfarið rýkur Alli upp, grípur hnífinn og heldur reiðilestur yfir Stinna og svo Magga fyrir að gera ekkert til að bjarga honum. Í lokin fær Maggi Alla til að viðurkenna að hann hafi sofið hjá fyrrverandi kærustu Magga sem endar með því að Maggi rekur Alla út úr íbúðinni. Eftir sitja Maggi og Stinni.
SKILGREINING VERKSINS
Unnið var samkvæmt hinni gerðarlegu greiningu. Þessi greiningaraðferð byggist á kerfi Stanislavskys sem jafnan er talinn faðir nútíma leiklistar. Greiningin er þríþætt. Fyrst er greindur svokallaður “Stóri hringur” Þar er höfundurinn tekinn fyrir, hvernig líf hans hefur verið og í hvernig samfélagið hann lifir/lifði í. Næst er greindur “Miðjuhringur”. Hann inniber allt sem gerist í verkinu sjálfu. Reynt er að skilgreina heim verksins og þau lögmál sem gilda þar. Einnig eru fundnir höfuðviljar og aðalhindranir persóna í verkinu sem heild.
Að lokum er “Innsti hringur” skilgreindur en það byggist á að greina allt verkið niður í kringumstæður, stórar og smáar og fundnir viljar og hindranir persóna í hverri kringumstæðu fyrir sig.
Undirliggjandi drífandi hindrun er stutt skilgreining á heimi verksins og baráttunni þar(sjá viðauka nr.3):
Í heimi þar sem allir lifa á fornri frægð, í fortíðinni, í hlutverkum sem
fólk lenti í sem börn. Er ekki pláss fyrir að þroskast, horfast í augu við
sjálfan sig, halda áfram í lífinu og brjótast út úr stöðnuðum hlutverkum þ.e. fullorðnast. Baráttan í verkinu snýst um að halda í fortíðina, hlutina eins og þeir voru.
Eftirtalin orð komu upp í vinnuferlinu og voru notuð til að skapa heim verksins.
Kúgun
Ofbeldi
Eiturlyf
Vinátta
Ábyrgð
Ranghugmyndir Fortíðarhyggja/ Þrá
Sjónvarp
Samkynhneigð
Klám
Framhjáhald
Leyndarmál
Æskuminningar
Sjálfsfróun
Sambúð
Sjálfsmynd
Kvenhatari
Sakleysi
Einelti
Karlremba
Kærasta/Kærasti
Kynlíf
Von/Vonleysi
Ást/Hatur
Karlmennska
Djamm
Samkeppni
Traust/Vantraust
Undirliggjandi drífandi hindrun er eitthvað sem á við allar persónur
verksins og því þann heim sem þeir eiga sameiginlegan. Vandamálin sem
þeir eiga við að etja í leikritinu geta öll fallið undir þessa
skilgreiningu, þar með talið geðveiki Stinna.
Eftir að hafa skilgreint verkið og komist að því að geðveikin spilaði stóran þátt í undirstöðum þess urðu Hugaraflsmeðlimir okkar stærsta heimildauppspretta með reynslusögum sínum og bakgrunni.
ÞÁTTTAKENDUR
HUGARAFL
Hugarafl er hópur einstaklinga sem á við geðræn vandamál að stríða og eru í bataferli og starfa með tveimur iðjuþjálfum, þeim Auði Axelsdóttur og Elínu Ebbu Ásmundsdóttur, sem hafa víðtæka reynslu á geðheilbrigðissviði. Meðlimir Hugarafls vilja deila reynslu sinni með öðrum sem eru styttra komnir í bataferlinu. Hugarafl starfar í Heilsugæslunni í Reykjavík og ætlar meðal annars að vinna að verkefnum sem miða að því að bæta geðheilbrigðisþjónustu með þeirra sýn.
Markmið hópsins er fyrst og fremst að skapa hlutverk fyrir fólk með reynslu af geðsjúkdómum með þáttöku í verkefnum sem hafa áhrif á þjónustu við geðsjúka. En Starfshópurinn Hugarafl vill skapa einstaklingum tækifæri á að nýta sínar sterku hliðar, hæfileika og reynslu. Hópurinn vill vinna gegn fordómum hjá þeim sjálfum og öðrum því nóg er af þeim í umhverfinu. Fordómar eru þekkingarleysi og því vill hópurinn breyta með því að stuðla að markvissri fræðslu um geðsjúkdóma og reynslu sína í baráttunni til bata. Með þáttöku í hóp sem þessum eflist eigin áhrifamáttur og stuðlar enn frekar að eigin bata.
Elín Ebba Ásmundsóttir forsvarsmaður starfar sem forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við Háskólann á Akureyri.
INGVAR E. SIGURÐSSON - leiðbeinandi
Útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990. Hann hefur leikið mörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið, Leikfélagi Reykjavíkur og hinum ýmsu sjálfstæðu leikhópum. Ingvar lék meðal annars í kvikmyndunum Inguló, Djöflaeyjunni, Perlum og svínum, Stikkfrí, Sporlaust, Englum alheimsins, Fálkum, K19, Stormviðri, Second nature og Kaldaljós. Ingvar er meðlimur í leikhópnum Vesturport sem setti upp hina margrómuðu Rómeó og Júlíu hér heima og erlendis.
JÓHANN INGI GUNNARSSON - leiðbeinandi
Jóhann Ingi er sálfræðingur. Hann lauk BA-prófi í sálfræði árið 1982 og embættisprófi í sálarfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi. Jóhann Ingi rekur eigin sálfræði- og ráðgjafarstofu í Garðabæ ásamt Sæmundi Hafsteinssyni. Hann starfaði lengi sem handknattleiksþjálfari og þjálfaði fremstu félög Þýskalands um sjö ára skeið. Einnig þjálfaði hann íslenska landsliðið um tíma. Jóhann Ingi hefur starfað mikið við ráðgjöf í fyrirtækjum og haldið samskiptanámskeið fyrir fyrirtæki og stofnanir bæði hér á landi og erlendis.
KRISTÍN EYSTEINSDÓTTIR – leikstjóri
Nam dramatúrgíu við Árósaháskóla. Kristín hefur starfað sem dramatúrgur og aðstoðarleikstjóri, meðal annars í Skáld leitar harms í Hafnarfjarðarleikhúsinu , Beyglum með öllu í Iðnó, í Jóni Oddi og Jóni Bjarna og Vegurinn brennur í Þjóðleikhúsinu. Fyrsta leikstjórnarverkefni hennar í atvinnuleikhúsi var Vinur minn heimsendir eftir Kristínu Ómarsdóttur sem Mink-leikhópurinn setti upp í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhúsið. Kristín er stundakennari við leiklistardeild Listaháskóla Íslands og framkvæmdastjóri Sjálfstæðu Leikhúsanna.
REYKVÍSKA LISTALEIKHÚSIÐ
Reykvíska Listaleikhúsið er sjálfstætt starfandi leikhús fjögurra leiklistarnema í Listaháskóla Íslands. Með stofnun þess viljum við nýta nám okkar í verki, ögra sjálfum okkur og öðlast nýja og víðtæka reynslu.
Fyrri verkefni eru m.a.
Líknarinn e. Brian Friel
Krádplíser e. Jón Atla Jónasson
Örlagaeggin e. Höskuld Ólafsson
Bambiland, samstarfsverkefni Vesturports og RLL-áætluð frumsýning jan.2006
JÖRUNDUR RAGNARSSON - leikari
Nemandi á 4. ári við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Tók þátt í uppfærslu á sýningunni Upprisa Holdsins með Stúdentaleikhúsinu 2001.
STEFÁN HALLUR STEFÁNSSON - leikari
Nemandi á 4.ári við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Stefán Hallur hefur komið víða við innan leikhússins. M.a. verið framkvæmdastjóri Leikskólans, Stúdentaleikhússins og Reykvíska Listaleikhússins sem öll eru sjálfstæð áhugaleikfélög auk þess að leika í fjölmörgum leikritum, auglýsingum og stuttmyndum. Stefán Hallur er Menningarstyrkhafi VISA fyrir leiklist árið 2005.
VIGNIR RAFN VALÞÓRSSON -leikari
Nemandi á 3. ári við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Vignir er stofnmeðlimur í leikfélaginu Tengdasynir sem m.a. setti upp sýninguna Áttu smit? sem vakti mikla athygli sumarið 2004.
HUGARAFL – UM VERKIÐ
∗Birt án leiðréttinga
Garðar Jónasson:
Stinni kemur úr heræfingarbúðum sem nýliði. Eina nóttina er honum nauðgað af hinum sem lengra eru komnir og verður þar á meðal fyrir niðurlægingu og lagður í einelti.
Maður spyr sjálfan sig hvers vegna leitaði hann ekki til stigamóta.
Hann segir pabba sinn “Ronny” frá þessu en Ronný, þessi stóra og sterka týpa, bregst illa við og segir Stinna helvítis aumingja sem sé að ljúga upp á félaga sína herinn er fyrir karlmenn og karlmenn fara ekki að væla.
Upp frá þessu dettur Stinni inn í sinn “geðveika heim” og lýtur svo á að Ronný sé ekkert pabbi hans og nauðgunin sem átti sér stað var einfaldlega yfirheysla því hann Stinni er svo merkilegur. Hann er jú sonur hans Georg Bush forseta Bandaríkjanna , og þessir Pentreitorar voru málaliðaliðar á vegum Saddams Hussein eða Osamma Bein ladens sem ætluðu að “blackmaimila” Georg Bush (Geðveikar Hugsanir)
Stinni er rekinn úr æfingarbúðunum eftir uppsteit og slagsmál við yfirmenn hersins.
Stinni leitar því fárveikur og niðurbrotinn á æskuslóðir til “besta vinar síns” . Hann leitar í þá upplifun þar sem sá “ stóri og sterki og Maggi sá góði. Vinur og forever.
Stinni er uppfullur af því þegar hann var í svarta herberginu og því sem átti sér stað þar.
Þegar Stinni kemur til Magga er Alli þar fyrir.
Samband Magga og Alla er eitthvað á þá leið tveir strákar sem leigja saman annar iðjuleysingi sem reykir og dópar mikið hugsar mikið um kynlíf og lítur á konur sem verkfæri skaufans.
Alli hann er þessi mýkri týpa sem reynir þó að hitta inn hjá hinum, hann er ekki hommi og er ekki þessi kallremba sem Maggi er..
Maggi er sífellt að skjóta einhverju á Alla m.a. að Alli sé hommi, og ýmis konar klám fengið efni sem hann er í sífellu að skjóta á Alla.
Það er eins og Maggi sé að fela sig bakvið eitthvað með því að vera að dópa og sífellt að tala um homma kjaftæði en Maggi er alltaf að skjóta því að Alla að Alli sé hommi en í raun kemur Maggi mer fyrir sjónir sem hommi. Þar sem hann felur tilfinningar sínar niður með því að vera að dópa sem meðal annars leiðir til þess að hann verður iðjuleysingi.
Bergþór Grétar Böðvarsson:
Stinni kemur í heræfingabúðir sem nýliði. Eina nóttina er honum nauðgað af hinum sem lengra eru komnir og verður þ.a.l. fyrir niðurlægingu og er lagður í einelti.
Hann segir pabba sínum "Ronný" frá þessu en Ronný, þessi stóra og sterka týpa, bregst illa við og segir Stinna helv. aumingja sem sé að ljúga upp á félaga sína, herinn er fyrir karlenn og karlemm fara ekki að væla.
Upp frá þessu dettur Stinni inn í sinn "geðveika heim" og lýtur svo á að Ronný sé ekkert pabbi hans og nauðgunin sem átti sér stað var einfaldlega yfirheyrsla því hann, Stinni, er svo merkilegur. Hann er jú sonur hans Georgs Bush, forseta Bandaríkjanna, og þessir Penetreitorar voru málaliðar á vegum Saddams Hussein eða Osama Bin Ladens sem ætluðu að "blackmaila" Georg Bush. (Geðveikar hugsanir)
Stinni sér eitthvað fallegt við Alla og hrýfst af honum en honum stendur samt sem áður einhver ógn af honum. Samband Magga og Alla er eitthvað á þá leið "tveir strákar sem leigja saman, annar
iðjuleysingi sem reykir og dópar mikið, hugsar mikið um kynlíf og lýtur á konur sem verkfæri skaufans. Hinn er þessi mjúka týpa sem reynir þó að fitta inn hjá hinum, hann er ekki hommi og er ekki þessi karlremba sem Maggi er. Því er erfitt að átta sig á því hvort Alli sé hommi eða ekki.
Alli er þessi týpa sem hefur ekkert of miklar áhyggjur af sinni kynhneigð, hann veit að hann hrýfst af stelpum meira en strákum, en hann skynjar líka að Maggi hefur einhvern áhuga á honum. Hann er undirgefinn hvað Magga varðar enda veit hann upp á sig sökina þar sem hann svaf hjá Láru fyrrverandi kærustunni hans.
Spurning hvort að Stinni sé hommi eður ei, hann upplifði jú kynferðislega stemmingu með Magga, en ég held að það sé ekki endilega það að hann sé hommi, heldur einhver væntumþykja og hlýja. Maður sem upplifir geðveikina svona sterkt á oft erfitt með að
átta sig á sinni kynhneigð. Geðsjúkir eru í sínum alvarlegustu veikindum oft að berjast við tilfinningar sínar og mörkin á milli "ástar og einhverrar
kynferðislegrar hvatar" eru oft mjög óskýr.
Þ.a.l. held ég að Stinni sé ekki hommi heldur maður sem leitar eftir væntumþykju en hann þarf jafnframt útrás fyrir sínar "geðveiku" kynferðislegu hugsanir. Ég held að Maggi sé hommi en hann skammast sín hrikalega fyrir þessar tilfinningar og hann gerir því allt sem hann getur til að refsa sjálfum sér og reyna að telja sjálfum sér í trú um að hann sé ekki hommi. Innst inni veit hann þó að hann er hommi.
KAFLI 3. – AÐFERÐAFRÆÐI
GAGNAÖFLUN / VERKLÝSING / FRAMVINDA
MAÍ – JÚNÍ 2005
Seinni hluti maímánaðar fór í undirbúningsvinnu. Vinnuaðstaða var fundin og kafað var í greiningarvinnu á leikritinu Penetrator (í ísl. Þýðingu Penetreitor) eftir Anthony Neilson út frá hinni gerðarlegu greiningu sem útskýrð var hér á undan og í viðauka. Kerfið gengur út á að skilgreina heim verksins og grunnlögmál/reglur þess heims. Finna baráttuna í verkinu og opna það.
Út frá auknum skilningi á efniviði verksins reyndist auðveldara að ræða
við fagaðila á jafningjagrundvelli.
Lagðar voru línur með Ingvari E. Sigurðssyni í byrjun júnímánaðar
varðandi þá leikrænu stefnu sem við vildum fylgja og hvernig best væri að
nálgast þátttakendur í rannsóknarvinnunni. Ákvörðun var tekin um að fara
ekki hefðbundnar leiðir í rannsóknarvinnu því málefnið væri viðkvæmt og
persónulegt. Fram kom ákveðin hræðsla þátttakenda við það hvernig best
væri að nálgast fólk með geðræn vandamál og reynslu af andlegu ofbeldi.
Einnig var rætt um fordóma heilbrigðisstéttarinnar gagnvart leikhúsinu og vinnuaðferðum þess. Ákvörðun var tekin um að reyna eftir fremsta megni að nýta okkur ekki viðmælendur okkar heldur láta þá nýta okkur. Hann benti okkur m.a. á að ræða við Ólaf Þór Ævarsson geðlækni og Kára Halldór Þórsson leikstjóra og kennara. Ólafur reyndist vera erlendis en ritari hans Ásdís Arnljótsdóttir spjallaði við okkur um 30 ára reynslu sína af andlegu og líkamlegu ofbeldi. Reyndist sá símafundur mjög gagnlegur þv hann fullvissaði okkur um að rétta leiðin til að tækla viðmælendur okkar væri ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut heldur frekar af heiðarleika og hreinskilni.
Kári Halldór leikstjóri gaf okkur einnig góð ráð. Hann benti okkur á að
mikilvægt væri að leyfa viðmælendum okkar að leiða vinnuna. Taka ekki
stjórnina heldur hugsa um viðmælendurna sem leikstjóra og höfunda.
Útlistaðar voru hugmyndir um vinnuaðferðir, m.a. að lesa senur fyrir
þátttakendur, umræðuhópar og einn-á-einn viðtöl.
Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri og dramatúrg hafði áður fengið leikritið
og rannsóknarlýsinguna til yfirlestrar og leituðum við til hennar á þeim
forsendum að skilgreina hina dramatúrgísku hlið rannsóknarinnar. Leist
Kristínu svo vel á verkefnið að hún bauðst til að leikstýra hugsanlegri
uppfærslu endurgjaldslaust. Þáðum við það með þökkum. Eftir nokkra fundi með henni ákváðum við að fókusinn á rannsóknarvinnunni ætti að vera á fólkinu sjálfu, viðmælendunum, en ekki að einblína á vandamálin sjálf. Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur staðfesti þetta því þó að geðrænir sjúkdómar og vandamál séu skilgreind í þaula þá eru þau alltaf einstaklingsbundin.
Ekki er gott að brennimerkja fólk með skilgreiningum og draga það í dilka heldur á frekar að tala við manneskjuna sjálfa, kanna forsögu og forsendur vandamálsins, ekki vandamálið sjálft.
Á þessum tímapunkti kom Hugarafl inn í verkefnið. Hittumst við á
hópfundi, var vel tekið, áhugi á verkefninu mikill og samstarfsmöguleikar
ræddir. Um er að ræða einstaklinga með mismunandi bakgrunn og
vandamál. Þessi fundur opnaði augu okkar fyrir þeirri staðreynd að við
vorum að fást við fólk en ekki tölur eða skilgreiningar. Ákveðið var að
Hugarafl kæmi inn í rannsóknarferlið á þann hátt að þátttakendur læsu
verkið og fylgdust með leikrænni vinnu. Litlir umræðuhópar voru
stofnaðir, 2 –3 manna sem skiptust á að vera viðstaddir æfingar og
samlestra. Ætlunin var að athuga hvort þátttakendurnir tengdust verkinu,
aðstæðum og atburðum.
Meðfram rannsóknarvinnunni var unnið að því að fínpússa þýðingu verksins úr ensku yfir á íslensku, unnið með tilvísanir í verkið út frá dagblöðum, kvikmyndum, sjónvarpi og fjöldamargir umræðufundir haldnir okkar á milli.
Einnig vorum við í sambandi við Margréti Ákadóttur dramaþerapista og voru möguleikar dramaþerapíunnar við vinnuna enn í mótun á þessum tímapunkti. Hitt Húsið –Total Ráðgjöf var okkur innan handar með bóklegan efnivið og gaf okkur góð ráð. Viðræður við Regnbogabörn voru styttra á veg komin því eineltishugtakið hefur þurft að víkja fyrir umfangsmikilli rannsóknarvinnu við hin geðrænu vandamál. Stefnan í júlí var því að halda áfram á þessarri braut, vinna náið með Hugarafli og öðlast dýpri skilning á fólkinu sem við vorum að vinna með.
JÚLÍ 2005
Hópurinn las leikritið Penetrator e. Anthony Neilson og tók þátt í greiningarvinnu og umræðum um það. Síðan var leikritið lesið fyrir
þennan hóp á samlestri í Tjarnarbíói í byrjun júlímánaðar. Út frá þeim
samlestri spunnust upp umræður um eðli verksins, hvort þýðingin stæðist
trúverðugleika og þá aðallega hvernig þau geðrænu vandamál sem persónur verksins glíma við kæmu þeim fyrir sjónir. Tveir einstaklingar í hópnum hafa verið að glíma við geðklofa í mörg ár og var átakanlegt að hlusta á þeirra eigin sjúkdómssögu og bera hana saman við sögu persónanna í leikritinu. Út frá þessum pælingum bjuggum við til forsögu persónanna út frá forsögum kjarnahópsins og reyndum að skilja
betur forsendur, markmið og vilja persónanna. Sú þekking og reynsla sem meðlimir Hugarafls búa yfir er ómetanleg viðbót við grunnvinnu leikara jafn dramatísku verki og Penetrator er.
Einnig var farið yfir hvernig sjúkdómseinkenni hjá geðklofasjúklingum lýsa sér að staðaldri, hvernig best er fyrir aðstandendur að takast á við sjúkdóminn og hvaða meðferð er í boði.
Kom sterklega fram í þessum umræðum að fólkið í Hugarafli hefur djúpan og víðtækan skilning á mannlegu eðli og hjálpuðu þau okkur mikið við að halda áfram með æfingaferlið.
Ákveðið var að para saman leikara og Hugaraflsmeðlim til að kafa betur
ofan í hverja persónu fyrir sig og skrifuðumst við og hittumst með vangaveltur um verkið sitt í hvoru lagi út mánuðinn.
Í samráði við Hugarafl og hvatningu frá þeim ákváðum við að næsta skref í stöðunni væri einfaldlega að æfa og sýna verkið, ekki þó sem fullbúna sýningu heldur til að halda áfram þeirri þróun sem nú hafði verið hrundið af stað. Halda boltanum gangandi, fara lengra með rannsóknarvinnuna og athuga hvort sú undirbúningsvinna sem nú þegar hafði verið unnin skilaði sér ekki upp á svið. Rökrétt skref og gagnlegt fyrir okkur sem leikara og ánægjulegt og vonandi gefandi fyrir Hugaraflsmeðlimi sem flestir, ef ekki allir, voru að koma bakdyramegin inn í leikhúsið í fyrsta sinn.
Eftir að hafa velt fyrir okkur nokkrum stöðum sem við gætum sýnt verkið fengum við inni í listamiðstöðinni Klink og Bank. Við komum okkur vel fyrir í kjallara hússins og byggðum þar litla “íbúð”. Til að gera
leikhúsupplifunina sem áhrifamesta rúmaði leikrýmið aðeins 30 áhorfendur, en einn tilgangurinn með því að setja verkið upp var einmitt að vekja fólk til umhugsunar, hafa eilítil áhrif á þankaganginn og vonandi varpa fram spurningum sem fólk vildi fá svör við.
Seinni hluti mánaðarins fór því einnig farið í verklegar framkvæmdir,
smíðar, ljósa– og hljóðvinnu, æfingar á verkinu og rennsli á
verkinu og hlutum úr því. Kjarnahópurinn okkar kom inn í þann hluta
verkefnisins sem snýr að æfingum og rennslum. Stefnan var að renna út mánuðinn með tilheyrandi umræðum og
vangaveltum og sýna um eða eftir mánaðarmótin júlí-ágúst.
ÁGÚST 2005
Upphaflega ætluðum við að sýna fjórum sinnum. Nota sýningarnar sem lið í rannsókninni til að athuga hvort samstarfið væri að skila sér upp á leiksviðið. Sýningarnar urðu alls 12 og ávallt var sýnt fyrir fullu húsi. Urðum við að hætta því að Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands var farið að skarast á við sýningarnar. Vel sóttur umræðufundur um vinnuna og leikritið var svo haldinn eftir eina sýninguna með aðstoð Hugarafls en einnig stefndum við að því að bjóða þeim félags-og forvarnarsamtökum, sem áttu erindi við verkið, sérstaklega á sýningar og efndum það með því að iðjuþálfar á geðsviði LSH fengu einkasýningu á verkinu auk þess sem fjöldamargir einstaklingar nutu góðs af tengslum við efnið.
Stefnan er að setja verkið upp aftur eftir áramótin 2005-2006 sökum fádæma góðrar eftirspurnar og mikilla vinsælda. Það er að vísu vandkvæðum bundið sökum þess að þátttakendur eru í skóla en reynt verður að finna flöt á því máli. Leikfélag Reykjavíkur hefur boðið okkur til samstarfs og eru þau mál í íhugun.
RAMMI VERKEFNIS
Listrænn rammi
Hugmyndin á bak við hina listrænu útfærslu var sú að farið var í
tilfinningalegt ferðalag með áhorfandann. Við kynntumst hinu harmræna í
lífi persónanna, einmanaleikanum og sorginni sem fylgir því að vera
tilfinningalega utanveltu í lífinu og áhrif þess á aðrar persónur.
Forsendur hins listræna ramma var sú að þátttakendur í verkefninu tóku virkan þátt með leikstjóra í hugmyndavinnu á öllum stigum.
Þýðing verksins var í höndum eins þátttakanda og leikara, Vignis Rafns Valþórssonar. Verkið var staðfært til Íslands til að tengja verkið betur við þann raunveruleika sem við búum í og við.
Tæknilegur rammi
Þáttakendur í verkefninu hlutu ráðgjöf frá fagmönnum í
leikmyndasmíði, búningahönnun og ljósa- og hljóðvinnu um tæknilegar
útfærslur og lausnir, bæði á undirbúningsstigi, svo og framkvæmdastigi.
Þátttakendur verkefnis sáu alfarið um tæknilega og útlitslega
útfærslu sýningarinnar.
Fjárhagslegur rammi
Nýsköpunarsjóður Námsmanna greiddi laun þátttakenda í verkinu. Þátttakendur/leikarar voru 3 en styrkur fékkst fyrir 2 þátttakendur þannig að öllum launum var deilt í þrjá hluta og skipt jafnt á milli. Við vonum að þetta brjóti ekki í bága við lög Nýsköpunarsjóðs og að engum verði meint af. Ákvörðun var tekin um að láta 500 krónur kosta inn á sýningar til að standa straum af efnis-og uppsetningarkostnaði sem hefur skilað sér til baka. Leikstjóri þáði enga greiðslu fyrir vinnu sína né tóku leikarar sýningalaun. Allur ágóði af sýningunni fer í að setja hana upp aftur eftir áramótin 2005-2006
Tímarammi
20. maí - Vinnuaðstaða fengin hjá Listaháskóla Íslands
27. maí – Ingvar E. Sigurðsson, undirbúningsfundur
2. júní – Fyrsti fundur með Kára Halldóri Þórssyni leikstjóra
3. júní – Fyrsti fundur með Kristínu Eysteinsdóttur, leikstjóra
14. júní – Hugarafl, fyrsti hópfundur að Drápuhlíð 14-16
15. júní – Fyrsti fundur með Jóhanni Inga Gunnarssyni, sálfræðingi
16.júní-8.júlí Undirbúningsvinna
9. júlí – Æfingar hefjast í Klink og Bank
7.ágúst – Frumsýning
8.ágúst– 2.sýning
9.ágúst – 3.sýning
11.ágúst – 4.sýning
12.ágúst – 5. sýning
13.ágúst – 6.sýning
16.ágúst – 7.sýning
17.ágúst – 8.sýning
18.ágúst – Umræðufundur
23.ágúst – 9 .sýning
24.ágúst – 10.sýning
31.ágúst – 11.sýning
1.Sept.– Lokasýning
KAFLI 4. – GREINING GAGNA
NIÐURSTÖÐUR
Rannsóknarspurningin var að komast að því hvort að samvinna af þessu tagi skili árangri og ef svo er, þá hvaða og fyrir hvern?
Til að geta svarað þessarri spurningu þurftum við fyrst að spyrja hvernig maður gæti mælt árangur af slíkri samvinnu, hvernig mælir maður til dæmis hvort að leiksýning sé góð eða ekki? Hvernig er hægt að sjá hvort samstarf sé árangursríkt eða ekki ef um er að ræða huglægt samstarf en ekki efnislegt?
Umræðufundurinn sem haldinn var 18. ágúst 2005 og fylgir með í viðauka á DVD diskinum gaf okkur greinargóða mynd ásamt því að Bergþór Grétar Böðvarsson, meðlimur Hugarafls tók að sér að ræða við nokkra meðlimi Hugarafls um þeirra reynslu af verkefninu.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að meðlimir Hugarafls nutu þess mikið að taka þátt í slíku samstarfi, að vera metin að verðleikum sem manneskjur sem höfðu eitthvað til málanna að leggja. Tekið var sérstaklega fram hve vænt þeim þótti um að þeirra innlegg og reynsla væri metin að verðleikum. Ítrekað var að þessi aðferð, að geðsjúkir miðli af reynslu sinni sem virkir þátttakendur í skapandi ferli, stuðli að jákvæðum batahorfum.
Fyrir leikarana var þetta mjög gefandi samstarf. Leikrænt séð dýpkaði persónusköpun til muna og hjálpaði til við að útskýra flókin samskiptaferli milli persónanna í verkinu. Reynslusögur Hugaraflsmeðlima dýpkuðu bakland persóna auk þess sem þau komu með mjög gagnlegar ábendingar varðandi hegðun, atferli og líkamsbeitingu. Fyrir leikara er þetta ómetanleg uppspretta heimilda sem hægt er að nýta sér. Forðabúr sem hægt er að sækja í upplýsingar og svör.
Hvað markmiðin snertir uppfylltum við þær kröfur sem við settum okkur í upphafi. Við náðum sambandi við hóp innan samfélagsins sem tengdist efni verksins. Við komum upp félagslegu tengslaneti sem virðist ætla að skila sér í enn frekari aðild Hugarafls að leikhúsinu því Ingvar E. Sigurðsson hefur boðið þeim að taka þátt í umræðum um efni og persónur verksins Woyzeck sem Vesturport leikhópurinn áætlar að sýna í Barbican leikhúsinu í London og Borgarleikhúsinu í vetur.
Umræðufundurinn sem samanstóð af þátttakendum verkefnisins, fagaðilum úr geðheilbrigðisgeiranum og áhorfendum sem séð höfðu verkið skapaði samskiptanet sem undirstrikaði fyrrgreindar niðurstöður. Að samstarfið hafði skilað af sér leikriti sem snerti við fólki og skóp umræðu um sálarheill okkar samfélags.
Iðjuþjálfar á geðsviði Landspítala-Háskólasjúkrahúss lögðu undir sig heila sýningu endurgjaldslaust ásamt því sem aðilar tengdir Hugarafli, Hinu Húsinu og óháðir nutu sömu forréttinda.
Sýningin sjálf og verkefnið naut mikillar fjölmiðlaathygli, orðspor hennar breiddist hratt út og skapaði umtal og forvitni.
Eftir að Hugarafl kom inn í verkefnið náðum við að skilgreina betur þau vandamál sem persónur verksins áttu við að etja, ekki bara geðveikina heldur
einnig vandamál sem tengdust einelti, meðvirkni, kúgun, stjórnun, mótþróa,
uppreisn, stjórnleysi, tillitsleysi o.fl.
Fólkið sem átti við geðræn vandamál að stríða, þekkti mannlegt eðli og breyskleika mjög vel og virtist hafa aðra og næmari sýn á það. Þetta gaf okkur gífurlega mikið inn í vinnu með persónusköpun, samskipti persónanna og færði okkur nær þeim veruleika sem persónurnar lifa í. Einnig reyndist þetta gefa meðlimum Hugarafls mikið.
Þau tjáðu sig mjög opinskátt og einlægt um vandamál sín sem geðsjúklingar en líka bara sem manneskjur. Þarna fannst því vettvangur þar sem geðveikt fólk gat tjáð sig um sín veikindi og daglegt líf við aðra en starfsmenn heilbrigðisstétta og því gaf það þeim annað hlutverk, sem var ráðgjafar við leikhús.
ÁVINNINGUR
Ávinningur verkefnisins er þjóðfélagslegur með því að efla hlutverk geðsjúkra við að hafa áhrif á eigin bata, samfélagshæfni og menningarvitund og efla þannig mann- og félagsauð.
Mannauður byggist á menntun og þjálfun einstaklinga. Félagsauður byggist á tengslum á milli manna, trausti, hjálpsemi og aðstoð.
Einnig er ávinningur verkefnisins að nýta reynslu geðsjúkra í listsköpun og skapa þannig nýjan vettvang fyrir krafta þeirra. Auk þess að leiklistarnemar fái tækifæri til að vinna með geðsjúkum á jafningjagrundvelli sem nýtist þeim til skilnings á mannlegu eðli, óravíddum hugarfylgsnanna, persónusköpunar, karaktervinnu o.s.frv. og nýtist þeim sem fagaðilum í framtíðinni.
Mögulegt er að nýta niðurstöður þessa verkefnis til að auka vitund almennings um geðheilbrigði og draga þannig úr fordómum í garð geðsjúkra með því að sýna fram á hvað þeir eru færir um að leggja af mörkum til samfélagsins.
KAFLI 5. – UMRÆÐUR / NIÐURLAG
UPPLIFANIR EINSTAKLINGA Í HUGARAFLI
∗ Birt án leiðréttinga
Svava Ingþórsdóttir:
Mér fannst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt hlutverk,
að kenna öðrum að vera geðveikur. Mér fannst ég geta
skilað mínu og það var mjög gaman að sjá hvað leikararnir
drukku í sig efnið af áhuga. Ég vildi bara að læknarnir
hefðu sama áhuga :) Svona geðveikt leikrit er gott fyrir
samfélagið að sjá, svo menn geta sleppt allri háttvísi og
siðpríði og talað af alvöru um geðveikina, án þess að
roðna. Ég held að samstarfsmenn mínir séu sammála mér í
því.
Það sem ég reyndi að kenna þeim var að geðklofar lifa oft
á tíðum tvöföldu lífi í þeim skilningi að þeir lifa í
sínum ýmindaða heimi og í raunveruleikanum, margir heyra
raddir eins og ég sem á sér ekki stað í raunveruleikanum.
Þessar raddir taka oft stjórnina og fara að segja manni
fyrir verkum og hafa ákveðnar skoðanir um mann og aðra
menn. Þær benda manni á að engum sé treystandi og maður
trúir þeim því þær eru jafn raunverulegar fyrir mann og þú
og ég - og stóllin sem ég sit á.
Takk fyrir
Garðar Jónasson:
Persónuleg upplifun mín á verkinu
Það var alveg sérstök upplifun og ákveðinn forréttindi að hafa fengið að vera þáttakandi í þessu verki, fyrst lesa verkið yfir síðan að lesa verkið yfir með leikurum mæta á æfingar og geta komið með athugasemdir sem voru svo sannarlega vel þegar, efir sýningu þar sem leikendur settust niður með okkur og fóru yfir leikritið með okkur hvað mætti bæta.
Þetta er áhrifamikið leikrit og sérstök upplifun af fá að vera þáttakandi í mótun verksins sýnir að leikendur eru að fara nýjar leiðir til að nálgast þann veruleika sem leikrit þeirra byggist á. Leitað fanga utan hins ramma sem leikendur eru vanir að fara.nýtt á þeim vettvangi sem reynslan er fyrir hendi.
það má með sannri segja að leikendurnir hafi verið fróðleiksfúsir, og ekki á hverjum degi sem þeir fá að kynnast hugarheimi þeirra sem þeir leika “enda hafa þeir sem eru með geðræn vandamál að stríða sérstakan hugarheim sem ekki verður tekin frá þeim”
Leikendum tekst á frábærlega hátt að skila þessu verki til áhorfenda, á sérstaklega áhrifaríkan hátt sem varla er hægt að lýsa með orðum nema frábært í alla staði.
Bergþór Grétar Böðvarsson:
Að fá að taka þátt í þessu verkefni var alveg frábær upplifun.
Fyrst ber að nefna þann heiður þau, sem stóðu að þessu verkefni, sýndu okkur með því að leita til okkar.
Mér fannst líka gaman að sjá hvað þau voru áhugasöm um alla okkar geðrænu kvilla og áhugasöm um að fá að vita hvað okkur fannst um þetta.
Þar sem ég er bæði greindur með geðhvarfasýki og bý með konu sem er greind með geðklofa, þá fannst mér ég hafa mikið til málana að leggja.
Útkoman fannst mér takast alveg frábærlega vel og þeir strákarnir stóðu sig frábærlega í sínum hlutverkum.
Það er alls ekki auðvelt að setja sig inn í heim geðsjúkra og aðstandenda þeirra. Til þess að það sé hægt verður maður að vera rosalega einbeittur á það sem er að gerast í kollinum á manni og trúa á það sem maður er að gera.
Mér fannst strákarnir ná að setja sig rosalega vel inn í þennan heim og ég er alveg viss um að þetta hefur ekki verið auðvelt fyrir þá. Þeir hafa örugglega verið dágóðan tíma að ná sér niður eftir hverja sýningu.
Þetta líka sýnir okkur það að geðveikin er í okkur öllum, sumir þurfa að hemja sig til að reyna að takast á við hana, en aðrir þurfa bara að einbeita sér og leyfa henni að gossa.
Takk fyrir frábæra upplifun og gott samstarf.
Elín Ebba Ásmundsdóttir:
Umsögn um samstarf Hugaraflsmanna og leiklistanema varðandi nýsköpunarverkefni námsmanna Penetrator.
Elínu Ebba Ásmundsdóttur er meðlimur í Hugarafli og starfar sem forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA
Á síðustu árum hef ég reynt að markaðsetja geðið sem eitthvað jákvætt og þar með einnig einstaklinga sem stríða við geðsjúkdóm.
Frumkvæði um samstarf hefur samt alltaf verið okkar megin, það er afar sjaldgæft að fólki komi til okkar og óski eftir samstarfi.
Því kom það svo á óvart þegar ég frétti að ungir leiklistanemar hefði reynt að komast í samband við Hugarafl og hefðu áhuga á samstarfi.
Á fyrsta fundi hittu Hugaraflsmenn þrjá áhugasama leiklistarnema sem voru fullir af orku og eftirvæntingu.
Þeir sýndu hópnum einlægan áhuga og ekki fór á milli mála að þeir sáu verðmætin í reynslu geðsjúkra.
Þegar ég leit yfir handritið og hlustaði á fyrsta yfirlesturinn leist mér ekki á blikuna. Leikritið var gróft, ljót orð voru notuð og mikil átök.
Myndi einhver vilja sjá þetta? Gæti ég boðið mömmu minni og strákunum mínum á unglingsaldri að sjá stykkið?
En við vorum komin út í miðja á og ekki þýddi að snúa við.
Samstarfið við leiklistarnemana og leikstjóran var afar gefandi. Unnið var á jafningagrundvelli og án fordóma sem ekki er sjálfgefið þegar geðsjúkir eiga í hlut.
Þau hlutverk sem geðsjúkir eru oftast í er að taka við fróðleik og ráðleggingum frá öðrum. Hlutverkin í þessu samstarfi snérust við.
Þekking Hugaraflsmanna var í forgrunni. Þau voru sérfræðingarnir og miðluðu af reynslu sinni.
Þau tóku afstöðu til hvað væri trúverðugt og á hvern hátt menn haga sér í ákveðum aðstæðum.
Leikritið varð ekki lengur ljótt, ofbeldisfullt né fór yfir siðferðisleg mörk. Leikritið varð raunveruegt.
Ég sá sýninguna nokkrum sinnum og hún snart mig í hvert einasta skiptið.
Ég bauð mínun nánustu á hana því hún fjallaði um raunveruleikann.
Afrakstur samstarfsins var stórkostleg og það spurðist út. Allir sem heyrt höfðu um leikritið vildu koma að sjá og fá að upplifa sýninguna.
Leikararnir og leikstjórinn eru hæfileikarík og hefðu gert góða sýningu án okkar í Hugarafli.
En samstarfi við Hugarafl skapaði kannski meiri forvitni, eftirvæntingu og tengingu við lífið sem er svo mikilvægt í leikhúsi.
Leiklistarnemarnir sýndu líka almenningi að í reynslu geðsjúkra felast verðmæti.
Samstarfið opnaði líka gátt á milli ólíkra hópa sem hingað til hafa ekki unnið saman - leiklistarnemar - leikarar - geðsjúkir - fagaðilar.
Þeir víkkuðu enn samstafið með að bjóða almenningi til opins fundar þar sem leikritið og boðskapur þess voru rædd.
Umræðan var jafn opinská og leikritið.
Ég óska nýsköpunarsjóði námsmanna til hamingju með að hafa veðjað á þessa ungu menn. Þeir höfðu kjark til að takast á við
leikrit sem var á "mörkunum", höfðu kjark til að vinna með fólki sem tilheyrir "jaðrinum", og tókust á við krefjandi hlutverk.
Ungur blaðamaður hjá Morgunblaðinu valdi sem yfirsögn á grein sinni þar sem hann fjallaði um verkið Penetrator og samstarf Hugaraflmanna og umræðufundinn sem fyldgi í kjölfarið; "Bylting í íslensku leikhúsi". Hann varð fyrir áhrifum á sama hátt og ég. Verkið sat fast í huga manns, hreyfði við manni, það var eitthvað nýtt þarna á ferðinni, ögrandi, eitthvað persónulegt, eitthvað sem fékk mann til að hugsa um samskipti mannskepnunnar og fjölbreytileika mannlífsins.
UPPLIFANIR NEMA
Fyrir okkur sem leiklistarnema var þetta ferli allt ómetanlegt. Við
þroskuðumst allir sem listamenn og samstarfið við Hugarafl opnaði
dyr að möguleikum sem að við vissum ekki að væru til staðar. Að fá fólk
sem er með reynslu af viðfangsefninu til að vinna beint með leikurunum
færir leikhúsið upp á nýtt og æðra plan. Fyrir utan það að hafa kynnst
svona mikið af góðu fólki til að vinna með þá held ég að við göngum allir
frá þessu samstarfi sem betri manneskjur. Þegar við mættum á fyrsta
fundinn með Hugarafli vissum við ekki hverju við ættum von á, enginn okkar
hafði áður átt samneyti við geðsjúkt fólk og í sannleika sagt vorum
við svolítið varir um okkur. En það hvarf mjög fljótt eftir að fundurinn
hófst. Allar vangaveltur um hvaða orðalag væri “réttast” að nota eða
“hvernig” þessi væri, fuku út í veður og vind.
Eftir fundinn vissum við að við vorum á réttri braut. Þarna var fólk sem að vissi nákvæmlega hvar það stóð gagnvart sjúkdómi sínum og við fundum að við
þurftum ekkert að passa orðaval eða annað slíkt, þetta var fólk sem að við
gátum treyst til að segja okkur hvernig hlutirnir eru og draga ekkert
undan.
Hvað varðar uppsetninguna sjálfa þá var það frábær reynsla að vera allir
saman allt í öllu. Við hönnuðum leikmynd, smíðuðum hana, byggðum
áhorfendabekki, stilltum ljós, fundum leikmuni og gerðum leikskrá.
Fyrir utan það að æfa upp sjálft verkið.
Þarna vorum við að búa til sýningu á okkar eigin forsendum fyrir litla sem
enga peninga. Sýningu sem, að okkar mati, stenst fullkomlega samanburð við atvinnumannasýningar. Viðbrögðin við sýningunni komu okkur
skemmtilega á óvart og höfðu margir orð á því að mikil vöntun sé á
sýningum sem þessari. Það er, sem sagt, hægt að vinna vandaðar sýningar, hratt og án mikils tilkostnaðar. Að vinna kerfisbundið eftir óhefðbundnum leiðum við uppfærslur leikrita ber áberandi árangur.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home